Körfubolti

„Finnst öllum galið að ég sé að skipta um lið en þetta er minn ferill og mitt líf“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór í Valstreyjunni.
Jón Arnór í Valstreyjunni. vísir/sigurjón

Jón Arnór Stefánsson segist hafa verið búinn að ákveða að leggja skóna á hilluna áður en hann ákvað að ganga í raðir Vals. Jón Arnór er uppalinn hjá KR sem er eina íslenska liðið sem hann hefur leikið fyrir, þar til núna.

Hjá Val hittir Jón Arnór fyrir sinn gamla þjálfara, Finn Frey Stefánsson, og Pavel Ermolinskij sem hann lék lengi með hjá KR og íslenska landsliðinu. Sá síðarnefndi hjálpaði til við að sannfæra Jón Arnór um að koma í Val.

„Þetta var stór ákvörðun, ég viðurkenni það, og það var erfitt að taka hana. Pavel er búinn að vera að pönkast í mér svolítið lengi. Ég var eiginlega búinn að taka ákvörðun um að hætta svo fann ég að ég var ekki alveg tilbúinn til þess,“ sagði Jón Arnór í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur.

Geri þetta á mínum forsendum

Jón Arnór segir að hann hafi þurft að skipta um lið og fá nýja áskorun fyrst hann ákvað að halda áfram að spila.

„Það eru kynslóðaskipti í KR og leið eins og ég þurfti á breytingu að halda. Það var aðallega það og þess vegna tók ég þessa ákvörðun. Ég er og verð alltaf KR-ingur, átti yndislegan tíma þar og kveð þá með söknuði. En þetta er ákvörðun sem ég tek fyrir sjálfan mig. Ég hefði líklega hætt ef ég hefði ekki skipt um lið,“ sagði Jón Arnór.

„Ég er að gera þetta á mínum forsendum, það sem mig langar til og ekki eitthvað sem aðrir ætlast til af mér. Það finnst öllum galið að ég sé að skipta um lið en þetta er minn ferill og mitt líf. Mig langaði að spila eitt ár í viðbót og þá varð þetta að vera svona. Ég er fyrst og fremst ótrúlega spenntur að fá að spila og prófa eitthvað nýtt á Íslandi.“

Ætla að hugsa sem minnst og njóta þess að spila

Í Sportinu í kvöld fyrir nokkrum mánuðum lýsti hann því yfir að hann myndi aldrei spila fyrir annað lið á Íslandi en KR.

„Já, er svona stutt síðan,“ sagði Jón Arnór. „Ég ætlaði að taka mér tíma yfir sumarið. Ég var á því að hætta ef ég á að vera alveg hreinskilinn. En það er erfitt að vera með þessa tilfinningu alltaf, að vilja spila. Ef ég væri hættur kæmi það aldrei aftur og ég var ekki alveg tilbúinn til þess að segja alveg stopp. Ég ætla að njóta þess að spila og vera ekki alltof upptekinn af því að vera rosalega bestur og vinna allt sem í boði er,“ sagði Jón Arnór.

„Ég ætla að hugsa sem minnst og njóta þess að spila með Pavel mínum. Við erum miklir vinir og heyrumst á hverjum degi. Finnur er hérna líka svo ég er alveg með mitt fólk hérna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×