Körfubolti

Staðfesta félagaskipti Jóns Arnórs til Vals: „Ótrúlega sérstakt að kveðja KR í bili“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór hefur bara leikið með KR hér á landi. Nú verður breyting þar á.
Jón Arnór hefur bara leikið með KR hér á landi. Nú verður breyting þar á. vísir/bára

Jón Arnór Stefánsson er genginn í raðir Vals frá KR. Þetta kemur fram á heimasíðu körfuknattleiksdeildar KR.

Valur hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11:00 þar sem Jón Arnór verður kynntur sem nýr leikmaður liðsins.

Jón Arnór er uppalinn hjá KR sem er eina liðið sem hann hefur leikið með hér á landi. Hann hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari með KR.

„Það er ótrúlega sérstakt að kveðja KR í bili, enda alinn upp hérna, en mér fannst einfaldlega vera kominn tími á nýjar áskoranir. Ég fann að ef ég myndi halda áfram í körfubolta þá þyrfti ég að fara í nýtt umhverfi og ögra mér aðeins,“ segir Jón Arnór í fréttinni á heimasíðu KR. 

„Ég verð alltaf KR-ingur og það breytist ekkert, og það verður pottþétt skrýtið að spila í DHL-höllinni á næsta tímabili í annari treyju en KR treyjunni.“

Hjá Val hittir Jón Arnór fyrir sinn gamla þjálfara hjá KR, Finn Frey Stefánsson, sem og Pavel Ermolinskij sem hann lék lengi með hjá KR og íslenska landsliðinu.

Jón Arnór, sem er 37 ára, sneri aftur heim 2016 eftir áralanga dvöl í atvinnumennsku erlendis. Hann lék sinn hundraðasta og síðasta leik fyrir íslenska landsliðið í febrúar í fyrra.

Valur var í 10. sæti Domino's deildar karla þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×