Erlent

Niðurstöðu beðið um hvort Ægisif verður breytt aftur í mosku

Kjartan Kjartansson skrifar
Ægisif er helsta kennileiti Istanbúl. Hún var lengi vel stærsta dómkirkja í heimi.
Ægisif er helsta kennileiti Istanbúl. Hún var lengi vel stærsta dómkirkja í heimi. Vísir/AP

Æðsti stjórnsýsludómstóll Tyrklands íhugar nú kröfu þjóðernissinna og trúarhópa um að Ægisif, helsta kennileiti Istanbúl, verði breytt aftur í mosku. Lögmaður tyrkneska ríkisins leggst gegn kröfunni en niðurstöðu er að vænta innan tveggja vikna.

Ægisif, eða Sofíukirkjan, var byggð í tíð Austrómverska keisaradæmisins á 6. öld. Hún var helsta dómkirkja rétttrúnaðarkirkjunnar í fleiri aldir. Þegar Mikligarður, eins og norrænir menn kölluð borgina, féll í hendur Tyrkjaveldis árið 1453 voru fjórir bænaturnar reistir við kirkjuna og henni breytt í mosku. Mustafa Kemal Ataturk, stofnandi tyrkneska lýðveldisins, lét breyta Ægisif í safn árið 1934 sem laðar að sér milljónir ferðamanna árlega.

Nú krefst hópur þjóðernissinna og múslima þess að Ægisif verði aftur breytt í mosku, meðal á þeim forsendum að hún hafi verið persónuleg eign Mehmets annars, soldánsins sem lagði borgina undir sig. Því beri að ógilda ákvörðunina frá 1934.

Lögmaður ríkisins hafnar kröfunni og segir að það sé í höndum ríkisstjórnar landsins að ákveða hvað verði um bygginguna, að sögn AP-fréttastofunnar.

Gríska rétttrúnarðarkirkjan og Bartólómeus fyrsti, patríarki rétttrúnaðarkirkjunnar í Istanbúl, hafa hvatt tyrknesk stjórnvöld til þess að halda Ægisif sem safni. Ákvörðun um að breyta henni í mosku muni „snúa milljónum kristinna manna um allan heim gegn íslam“. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, blandaði sér einnig inn í deilurnar í gær og hvatti Tyrki til að hafa Ægisif áfram sem safni til að brúa bilið á milli ólíkra trúarbragða og menningarheima.

Utanríkisráðherra Tyrklands hefur gefið lítið fyrir álit erlendra leiðtoga og segir ákvörðunin um Ægisif alfarið innanríkismál Tyrklands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.