Viðskipti innlent

Spá hressilegri stýrivaxtalækkun á miðvikudag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og aðrir í peningastefnunefnd ráða ráðum sínum í vikunni.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og aðrir í peningastefnunefnd ráða ráðum sínum í vikunni. vísir/vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans áætlar að stýrivextir verði lækkaðir um 1 prósentustig á miðvikudag. Þá gerir hún ráð fyrir að verðbólga fari yfir verðbólgumarkmið í haust og verði orðinn 3,5 prósent í lok árs. Eftir það fari verðbólga aftur lækkandi.

Greinendur eru á einu máli um að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni ákveða að lækka stýrivexti á næsta fundi sínum, í ljósi þess gríðarlega samdráttar sem kórónuveiran hefur valdið. Ákvörðunin verður kynnt á miðvikudagsmorgunn og telur fyrrnefnd hagfræðideild Landsbankans að hún muni fela í sér lækkun upp á 1 prósentustig.

Eftir þrjár lækkanir á þessu ári upp á alls 1,25 prósentustig eru stýrivextir þegar í sögulegu lágmarki, standa nú í 1,75 prósentum. Mest hefur stýrinefndin ákveðið að lækka stýrivextina um hálft prósentustig í einu, sem hún gerði með viku millibili í mars. Verði spá hagfræðideildarinnar að veruleika er því ljóst að stýrivextir fara niður í 0,75 prósent og óþarft að taka fram að þeir hefðu aldrei verið lægri.

Í peningastefnunefnd sitja Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Þórarinn G. Pétursson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoëgasi

Spáin þeirra gerir jafnframt ráð fyrir að verðbólga muni aukast lítillega á næstu fjórðungum, fari hæst í 3,5 prósent á þriðja fjórðungi. Mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu og lítils háttar styrking krónunnar á næsta ári muni svo leiða til þess að verðbólga lækki niður í 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans á ný undir lok árs.

„Seðlabankinn getur lítið aðhafst til að bregðast við verðbóluþrýstingi á næstu mánuðum vegna veikingar krónunnar. Þar hafa vaxtabreytingar engin áhrif. Eins er engin sérstök ástæða að viðhalda jákvæðum vaxtamun við útlönd við núverandi aðstæður af ótta við útstreymi fjármagns erlendra fjárfesta. Veglegur gjaldeyrisforði Seðlabankans getur auðveldlega mætt slíku útflæði ef það skyldi gera vart við sig.“

Hagspá hagfræðideildar Landsbankans má nálgast í heild hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×