Körfubolti

Formaður KKÍ segir vandamálið stórt: Allir þurfa að taka þátt í að lækka kostnað

Sindri Sverrisson skrifar
Körfuknattleiksfélögin urðu af miklum tekjum vegna kórónuveirufaraldursins.
Körfuknattleiksfélögin urðu af miklum tekjum vegna kórónuveirufaraldursins. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Vandamálið er stórt. Það er númer eitt, tvö og þrjú að við lækkum allan þennan kostnað,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sem segir langflest körfuknattleiksfélög á Íslandi í dag eiga erfitt með að láta enda ná saman.

Hannes ræddi við Guðjón Guðmundsson í Sportinu í dag og var hreinskilinn varðandi það að staðan væri mjög erfið hjá körfuknattleiksfélögum nú þegar kórónuveirufaraldurinn hefur bæði tekið úrslitakeppnina af félögunum og efnahagskrísa vegna faraldursins orðið til að fækka styrktaraðilum.

„Það er alveg sama hverjir það eru í hreyfingunni okkar, hvort sem það eru þjálfarar, leikmenn, dómarar eða sjúkraþjálfarar, allir sem að þessu koma þurfa að gera sér grein fyrir því að næsta keppnistímabil verðum við öll að taka á okkur einhvers konar launalækkun eða minnka kostnað hvernig sem það verður gert, ef þetta á að vera gerlegt,“ segir Hannes.

„Það verður erfiðara að sækja fé, það verður örugglega erfiðara meira að segja að fá fólk til að mæta í íþróttahúsin, þannig að þetta er eitthvað sem við verðum að skoða mjög alvarlega. Við erum, öll sem eitt í hreyfingunni, ábyrg fyrir því að þetta geti tekist,“ segir Hannes.

Klippa: Sportið í dag - Körfuboltahreyfingin þarf að lækka kostnað

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Af hverju má ekki ræða launamálin almennilega?

„Það hefur alltaf verið þannig að félögunum er ekki vel við að ræða launamál, hvort sem það eru launamál erlendra eða íslenskra leikmanna,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×