Körfubolti

Hannes um erlenda leikmenn: „Menn sammála um að vera ósammála“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes S. Jónsson hefur verið formaður KKÍ til margra ára.
Hannes S. Jónsson hefur verið formaður KKÍ til margra ára. vísir/s2s

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að það sé ekki bara á Íslandi þar sem er rætt um fjölda erlenda leikmanna í hverju liði okkar því nágrannar okkar á Norðurlöndunum eru á svipuðum slóðum.

Það hefur fátt verið meira rætt í körfuboltaheiminum undanfarin ár en skoðanir manna á því hversu marga erlenda leikmenn liðin eiga að geta verið með á sínum snærum.

Um helgina fór fram formannafundur KKÍ en hann er haldinn annað hvert ár. Hannes segir að það hafi ekki dregið til neinna tíðinda um helgina.

„Það eru engar niðurstöður um þetta mál nema að menn eru sammála um að vera ósammála. Það er þannig áfram,“ sagði Hannes í Sportinu í dag.

„Menn hafa verið að velta fyrir sér heiðursmannasamkomulagi milli liða í efstu deildum eða hvernig sem það er. Ég veit að forráðamenn félaganna eru enn að ræða það sín á milli en að hendi KKÍ eða sambandsins þá er ljóst að engar breytingar verða á reglum erlenda leikmanna á næsta tímabili.“

„Félögin geta rætt sín á milli og þannig er það á ýmsum stöðum í Evrópu. Það eru ýmsar reglur um alla Evrópu og það er ekki bara á Íslandi, svo það sé tekið fram, sem eru að ræða þessi málefni erlenda leikmanna.“

„Þetta er rætt á Norðurlöndunum og á ýmsum stöðum hvernig þú getur aukið spilatíma leikmanna frá viðkomandi löndum. Þetta er ekki bara Ísland að ræða þetta og hefur ekki verið heldur er þetta mikið í umræðunni í körfuboltahreyfingunni yfir höfuð.“

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.