Innlent

Hugbúnaður til bjargar mannslífum

100 Íslendingar látast á íslenskum sjúkrahúsum árlega vegna óhappa við lyfjagjöf. Íslenskt fyrirtæki, TM Software, hefur hannað forrit sem tugir spítala víðs vegar um heim hafa keypt til að minnka líkurnar á mistökum.

Fyrirtækið stefnir að sögn Garðars Más Birgissonar, forstjóra fyrirtækisins á Akureyri, að því að verða leiðandi fyrirtæki í upplýsingaiðnaði og það teygir orðið anga sína út um allan heim. Það er ekki síst heilsugæsluforrit sem stórminnkar líkurnar á lyfjamistökum innan spítala sem hefur gert garðinn frægan.

Eins og fram kom hjá NFS í gær vantar nokkuð upp á skráningu óhappa innan spítala innanlands og segir Garðar að miðað við opinberar tölur erlendra ríkja megi ætla að allt að 100 Íslendingar látist á sjúkrastofnunum hér árlega vegna óhappa við lyfjagjöf. Tölur frá Bandaríkjunum sýna að þar látist um 7000 manns á spítölum árlega vegna óhappa við lyfjagjöf sem samsvarar því að ein Boeing breiðþota farist fullmönnuð einu sinni í mánuði.

 

Fyrirtækið starfar á þremur stöðum á landinu, á Akureyri, í Kópavogi og á Egilsstöðum. 500 starfsmenn þess eru meðal annars í Chile, Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Noregi, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi. Þá vinnur TM Software náið með Microsoft en starfsemi fyrirtækisins nær langt úr fyrir heilsugæslugeirann, þótt þar sé mikið verk óunnið. Tugir evrópskra sjúkrahúsa hafa tekið upp íslensk forrit frá TM en erlendir starfsmenn koma að hönnun þeirra. Þá eru íslenskar heilbrigðisstofnanir að verða sér úti um þennan búnað.

 

Meðal eigenda TM Software eru Icelandair. KB-banki, Tryggingamiðstöðin og Nýsköpunarsjóður en stærstu hlutirnir eru í eigu einstaklinga. TM- Software hefur síðustu fjögur ár fengið viðurkenningu sem eitt af framsæknustu fyrirtækjum Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×