Innlent

Samið um Héðinsfjarðargöng

Vegagerðin tilkynnti í dag að lægsta tilboði í Héðinsfjarðargöng hefði verið tekið. Skrifað verður undir 5,7 milljarða króna verksamning á Siglufirði eftir tvær vikur og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist fyrir lok þessa mánaðar. Jarðgöngin sem tengja eiga Siglufjörð og Ólafsfjörð verða vart stöðvuð úr þessu því með tilkynningu sinni til verktakans í dag um að tilboð hans hefði verið samþykkt, er í raun kominn á verksamningur. Ríkisstjórnin ætlar sér því greinilega ekki að fresta Héðinsfjarðargöngum, þrátt fyrir að ýmsir kalli eftir frestun opinberra framkvæmda þessa dagana. Verkefnið verður svo innsiglað með formlegri undirskrift sem boðuð hefur verið á Siglufirði laugardaginn 20. maí næstkomandi, að sögn Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra og vonast hann til að samgönguráðherra verði viðstaddur. Tilboðin voru opnuð fyrir sex vikum. Lægsta boð áttu tékkneska fyrirtækið Metrostav og Háfell, liðlega 5,7 milljarða króna, og hljóðar verksamningur upp á sömu fjárhæð. Eiður Haraldsson, framkvæmdastjóri Háfells, segist stefna að því að framkvæmdir hefjist fyrir lok þessa mánaðar. Fyrsta sprenging í sjálfum göngunum verður þó ekki fyrr í ágústmánuði. Gert er ráð fyrir að verkið taki þrjú og hálft ár og að göngin verði opnuð umferð fyrir árslok 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×