Lífið

Kíló af smjöri á 15 mínútum

Eymundur Gunnarsson, til vinstri, í kúrekadressinu sínu ásamt veitingastjóranum Sverri Inga Garðarssyni.
Eymundur Gunnarsson, til vinstri, í kúrekadressinu sínu ásamt veitingastjóranum Sverri Inga Garðarssyni.

Óvenjuleg keppni fer fram á veitinga- og kúrekastaðnum Tony"s County undir Ingólfsfjalli í kvöld þegar bitist verður um sigur í smjöráti. Hafa keppendur fimmtán mínútur til að slafra í sig einu kílói af smjöri og sá sem er fljótastur fær að launum fimmtíu þúsund krónur í verðlaun.

Að sögn Eymundar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Tony"s County, munu að minnsta kosti fjórir taka þátt. „Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert nokkru sinni áður,“ segir Eymundur, sem var að borða harðfisk og vantaði smjör þegar hann fékk hugmyndina.

Til að hafa vaðið fyrir neðan sig ákvað Eymundur að fá hjúkrunarfræðing til að vera á staðnum ef eitthvað kemur upp á. Einnig verða fötur á gólfinu ef menn þurfa að kasta upp. „Við höfðum samband við lækni og hann segir að þetta sé óþverri inn í æðarnar að fá þetta í svona magni á svona stuttum tíma en þetta er ekki hættulegt. Það er helst að það verði mjúkar hægðir á eftir,“ segir Eymundur, sem opnaði staðinn rétt fyrir síðustu jól. Segir hann viðtökurnar hafa verið framar vonum og fjölmargir hópar og fyrirtæki hafi sótt Tony"s heim og drukkið í sig amerísku kúrekamenninguna.

Auk smjörátsins bjóða Eymundur og félagar upp á ýmsar aðrar uppákomur. Má þar nefna Coyoty Ugly-kvöld sem var haldið í fyrsta sinn í gærkvöldi þar sem léttklæddar barstúlkur stukku upp á borð og helltu í gestina, líkt og í samnefndri kvikmynd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.