Innlent

80 hitamet slegin

Rúmlega áttatíu hitamet voru slegin í síðustu viku á veðurathugunastöðvum Veðurstofunnar. Hitabylgjan núna var sú mesta frá því mælingar hófust og fór hitinn hæst í rúmlega 29 stig. Veðustofan fór yfir hitametin í dag, nú þegar hitabylgjan er talin vera afstaðin. Í ljós kom að metin hafa fallið um allt land, samkvæmt upplýsingum frá Trausta Jónssyni veðurfræðingi. Bæði á suðvestanverðu landinu, inn til landsins og á miðhálendinu. Einnig féllu met norðantil á Vestfjörðum og á Ströndum. Fljótlegra gæti verið að telja upp þá staði þar sem met féllu ekki, eins og sums staðar við Breiðafjörð og sunnan til á Vestfjörðum. Engin met féllu heldur við norðaustur og austurströndina og einungis sums staðar í Skaftafellssýslum. Ekki eru öll metin talin merkileg vegna þess hve stutt sumar stöðvanna hafa verið lýði. Metin á Ströndum virðast einna mest afgerandi þegar litið er til langs tíma, en þar komst hitinn í 26 stig í síðustu viku. Hiti fer afar sjaldan yfir 20 stig á Ströndum, enn sjaldnar en í Reykjavík. Það sem er einnig óvenjulegt er hversu marga daga hitabylgjan stóð. Hiti komst yfir 20 stig í fjóra daga í röð í Reykjavík sem mun vera einsdæmi. Tvisvar er vitað um 20 stig þrjá daga í röð, það var í júlí 1939 og í ágúst 1893. Við lestur eldri metalista kemur enda í ljós að þessi nýafstaðna hitabylgja er ein sú almesta sem komið hefur síðan mælingar hófust. Hitabylgjan í júlí 1991 virðist ekki fjarri þessari og hitabylgjurnar í júlí 1976 og ágúst 1997 eru ekki langt undan þótt sennilega séu þær minni. Hitabylgjur fyrr á öldinni er erfiðara að meta, en landshitamet stendur þó óhaggað, frá í júní árið 1939 en eins og Trausti veðurfræðingur bendir á þá teljast íslenskar hitabylgjur frekar vesælar miðað við systur þeirra á meginlöndum og á suðrænum slóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×