Innlent

4 með matareitrun eftir túnfiskát

Fjórir einstaklingar veiktust í fyrra eftir að hafa borðað túnfisk á veitingahúsum en svokölluð krílfiskeitrun er ein af mörgum eitrunum sem geta komið upp við neyslu sjávarfangs. Í öðru tilfellinu var um að ræða þrjá karlmenn á besta aldri sem snæddu saman hráan túnfisk á veitingahúsi en í hinu tilfellinu sautján ára stúlku sem borðaði niðursoðinn túnfisk á salatbar. Greint er frá þessum tilfellum í Læknablaðinu. Túnfiskur er sérlega viðkvæm afurð þar sem hann er veiddur í heitum sjó og líkamshiti hans því hærri en hjá öðrum fisktegundum. Eitrunaráhrifin minna á bráðaofnæmi því bæði eru einkennin áþekk og tíminn sem líður þar til þau koma fram álíka langur. Algengasta krílfiskeitrunin er af völdum túnfisks eða makríls en eitrun getur þó orðið vegna neyslu alls fisks með dökku holdi, það á til að mynda við um ansjósur, síld, sardínur og lax. Það sem þessar tegundir eiga sameiginlegt er að í þeim er mikið histidín sem getur umbreyst í histamín ef geymsluaðferðir eru ófullnægjandi. Einkennin eru roði og brunatilfinning í húð, ógleði, uppköst, magaverkur, kláði, höfuðverkur og niðurgangur. Yfirleitt er ekki um alvarlega eitrun að ræða en sjúklingar með undirliggjandi hjartasjúkdóma hafa þó fengið mjög alvarlegar truflanir á hjartastarfsemi með langvinnu blóðþrýstingsfalli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×