Innlent

María Birta þakklát - Leitar að húsnæði fyrir Jólamarkaðinn

Eins og sjá má var verslunin Manía tómleg eftir að starfsmenn, eigendur og kaupmenn á Laugavegi björguðu vörunum.
Eins og sjá má var verslunin Manía tómleg eftir að starfsmenn, eigendur og kaupmenn á Laugavegi björguðu vörunum. MYND/VALLI
„Ég er svo rosalega þakklát," segir María Birta Bjarnadóttir, eigandi fata- og skóverslunarinnar Maníu. „Ég vona að ég geti haft samband við allt þetta yndislega fólk sem hjálpaði okkur, þessa engla."

Eldur kom upp á annarri hæð í húsnæði á Laugavegi 51 fyrr í dag en Manía er þar til húsa. Mikinn reyk lagði frá húsinu, þó svo að lítill eldur hafi verið sjáanlegur. Mikill eldsmatur var aftur á móti í húsinu. Eldurinn var ekki í sjálfri versluninni og því gátu María og aðrir hreinsað út vörurnar.

María segir að það hafi verið skelfilegt að sjá reykjarmökkinn stíga út úr húsinu: „Þetta var hrikalegt, eins og skýstrókur sem steig út úr húsinu."

Fljótlega hafði hópur fólks safnast saman fyrir utan verslunina. Nokkrir verslunareigendur og starfsmenn þeirra hjálpuðu Maríu við að bjarga vörum út úr versluninni.

„Maðurinn frá húðflúrstofunni hérna á Laugaveginum, Skinnlist, hann var eins og harðstjóri hérna fyrir utan. Skipaði fólki til og frá."

María segir að vonir um öfluga verslunarhelgi hafi í raun bjargað versluninni. Hún var með sex starfsmenn í vinnu þegar eldurinn kom upp og unnu þeir hörðum höndum við að bjarga vörunum. Hætta var á að fötin yrðu fyrir skemmdum enda lak mikið vatn milli hæða.

„Ég er nokkuð viss um að okkur hafi tekist að bjarga öllum vörunum," segir María. „Þetta var ótrúlegt, allir hlupu til og frá með fötin."

Það var sannarlega mikið í húfi fyrir Maríu og starfsmenn hennar. Þau voru í óða önn að undirbúa Jólamarkað og því var lagerinn fullur af vörum. Nú er hins vegar óvíst með markaðinn og leitar María nú að húsnæði.

„Já, ég er að leita að húsnæði fyrir Jólamarkaðinn og ég tek við öllum ábendingum," segir María að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×