Innlent

"Ekki bara glæpamenn í höfuðborginni“

„Það er nú bara þannig að glæpamenn búa ekki bara á höfuðborgarsvæðinu," segir Úlfar Lúðvíksson, sýslumaður á Ísafirði. Nýlega funduðu tveir lögreglumenn af höfuðborgarsvæðinu - sem hafa hvað mest unnið að rannsóknum mála er varða skipulögð glæpasamtök - með lögreglumönnum á Vestfjörðum.

Úlfar segir að fundurinn hafi verið liður í því starfi sem lögreglan hefur unnið síðustu misseri við að sporna við því að skipulögð glæpastarfsemi nái að skjótum niður fótum hér landi.

„Við erum að undirbúa bæði lögreglumenn og sveitarstjórnarmenn ef til þess kæmi að slík starfsemi myndi skjóta upp kollinum hér á Vestfjörðum," segir Úlfar og bætir við: „En það er ómögulegt að segja hvort að það muni gerast eða ekki."

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum voru lögregla og sveitastjórnir sammála um að vinna saman að því að tryggja að samtök sem þessi festi ekki rætur á svæðinu.

Ef einstaklingar verða varir við slíka þróun eru þeir hvattir til að gera lögreglunni viðvart. Hægt er að hafa samband í síma 450-3730 eða 800-5005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×