Lífið

Fimleikar eru frábærir fyrir jafnvægisskyn barna

Marín Manda skrifar
Guðrún Jóna Stefánsdóttir með Selmu Rún og Lindu Ýr.
Guðrún Jóna Stefánsdóttir með Selmu Rún og Lindu Ýr.
„Ég ákvað að taka að mér að þjálfa 7 ára börn í fimleikum í vetur þegar Linda Ýr dóttir mín og Selma Rún fósturdóttir mín vildu fara að æfa fimleika. Ég þurfti hvort eð er að keyra og sækja og því þótti mér tilvalið að nýta tímann með stelpunum og í leiðinni rækta áhugamálið,“ segir Guðrún Jóna Stefánsdóttir sem sjálf er mikill reynslubolti og hefur æft fimleika í 15 ár.

Í sumar mun hún stýra fimleikaskóla á vegum fimleikadeildar Gróttu fyrir 6-10 ára börn en boðið verður upp á mikla og fjölbreytta dagskrá á hverju námskeiði. Ásamt fimleikaþjálfun verður farið í sundferð, fjöruferð og leiki. Brúðubíllinn verður einnig heimsóttur.

„Ég mæli með þessu því fimleikahreyfing er grunnur allra annarra íþrótta og er góð leið til þess að læra inn á jafnvægisskynjunina. Námskeiðin geta hjálpað krökkum að ná samhæfingu hvað varðar hreyfigetu,“ segir Guðrún Jóna.

„Krökkunum er skipt niður eftir áhuga og getu en þeir sem hafa minni áhuga á sjálfum fimleikaæfingunum geta tekið þátt í fleiri leikjum í staðinn.“

Fimleikaskólinn verður opinn frá kl. 9-16 á daginn og standa námskeiðin yfir í eina viku í senn. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins, grottasport.is en skráning fer fram í gegnum rafrænt skráningarform Gróttu, á grotta.felog.is.

Selma Rún Rúnarsdóttir
Guðrún Jóna Stefánsdóttir kennir ungum börnum fimleika í sumar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.