Körfubolti

Teitur: Lægsti punkturinn þegar ég var rekinn frá Njarðvík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur Örlygsson gerði upp ferilinn sinn, bæði sem leikmaður og þjálfari, á Stöð 2 Sport í gær.
Teitur Örlygsson gerði upp ferilinn sinn, bæði sem leikmaður og þjálfari, á Stöð 2 Sport í gær. vísir/S2s

Körfuboltagoðsögnin Teitur Örlygsson segir að ein sín súrasta stund á ferlinum hafi verið þegar hann var látinn fara sem þjálfari uppeldisfélagsins Njarðvíkur eftir tímabilið 2008.

Teitur settist í stólinn hjá Rikka G í Sportinu í kvöld þar sem Teitur gerði upp magnaðan feril sinn. Hann vann aragrúa af titlum en þjálfaði einnig bæði uppeldisfélagið Njarðvík sem og Stjörnuna.

Eftir tímabilið 2008 segir í frétt að Teitur og Njarðvík hefðu komist að samkomulagi um að hann myndi yfirgefa liðið og Teitur segir að þetta hafi verið sárt.

„Það eru allir þessar úrslitaleikir sem ég tapaði,“ sagði Teitur um súrustu stundina á ferlinum. „Það er hundleiðinlegt og svo er það þegar ég var rekinn frá Njarðvík. Það var lægsti punkturinn.“

„Það fór illa með mig andlega og ég viðurkenni það. Þetta var erfitt sumar. Það var eitthvað sem ég bjóst ekki við. Mér fannst það ósanngjarnt og finnst það enn. Við misstum bæði Friðrik Stefánsson og Egil í meiðsli sem voru stóru mennirnir okkar. Við mættum Hlyni Bærings og Snæfell og ég var með Guðmund Jónsson og Jóhann Árna, einhverja unga stráka, bakverði að dekka Hlyn og við dettum út.“

„Mér fannst þetta erfitt því ég þekkti allt fólkið svo vel og ég var virkilega sár. Þetta nagaði mig í góðan tíma eftir þetta. Svo ákvað ég að halda áfram og fyrirgefa öllum því þetta er fólk sem ég hitti og þykir vænt um sem stóð að þessu. Mér leið þá sjálfum mikið betur fyrir vikið en þess vegna er ég svo þakklátur að Stjarnan hafi hringt í mig og gefið mér tækifærið.“

Klippa: Sportið í kvöld - Teitur rekinn 2008

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×