Innlent

Sakar meirihlutann í borginni um einelti og persónulegar árásir

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, sakar meirihlutann í borgarstjórn fyrir að leggja sig í einelti með ómálefnalegum og persónulegum árásum. Hann krefst þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokks biðji sig afsökunar.

Ólafur segir að allt frá því nýr meirihluti tók við völdum í borginni síðasta sumar hafi hann þurft að þola persónulegar og rætnar árásir frá fulltrúum sjálfstæðisflokks og framsóknar.

Á borgarstjórnarfundi í vikunni hafi Óskar Bergsson kallað til Ólafs: "Borgarráð er ekki ruslakista fyrir andlegt rusl úr þér."

Ólafur segir þetta ekki í fyrsta skipti sem hann verður fyrir árás af þessu tagi.

,,Hann hefur gert það stöðugt en margir borgarfulltrúar Sjálfsæðisflokksins líka en það hefur enginn notað jafn óheflað og dónalegt orðbragð og né sýnt jafn ruddaleg framkomu og Óskar Bergsson."

Ólafur líkir þessu við einelti. ,,Mér finnst það leitt að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur tekið þessa stefnu að reyna að tala niður til mín. Gefa í skyn ég sé ruglaður eða vanheill. Þetta er allt byggt á lygi og gróusögum. Þessu verður að linna."

Ólafur vill að Óskar víki úr stöðu sem formaður borgarráðs. ,,Ég líð þetta ekki lengur og til dæmis krefst þess að Hann Birna og fleiri fulltrúar Sjálfstæðisflokksins biðji mig afsökunar á sínu framferði."

Ekki náðist í Óskar Bergsson við vinnslu fréttarinnar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×