Erlent

Vísar í fjölda fylgjenda tístarans til að verja dreifingu á rakalausri samsæriskenningu um dauða Epstein

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump ræðir við fréttamenn í forsetaflugvélinni.
Trump ræðir við fréttamenn í forsetaflugvélinni. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því að hafa dreift rakalausri samsæriskenningu um að Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi átt þátt í dauða Jeffrey Epstein í fangelsi um helgina. Vísaði Trump í fjölda fylgjenda grínistans Terrence K. Williams á Twitter til þess að verja áframtíst sitt á tísti hans.

Epstein, sem var sakaður um mansal og kynferðisbrot, fannst látinn í klefa sínum á laugardag og hafa yfirvöld í Bandaríkjunum hafið rannsókn á dauða hans. Fjöldi samsæriskenninga um dauða Epstein hafa farið á flug síðustu daga. Epstein átti marga auðuga og valdamikla vini, þar á meðal Clinton og Trump sjálfan. Epstein var handtekinn í síðasta mánuði og ákærður fyrir mansal á unglingsstúlkum á Flórída og í New York.

Trump var einn þeirra sem dreifði samsæriskenningu um dauða Epstein á netinu um helgina með því aðáframtísta tísti hægrisinnaða grínistans Terrence K. Williamsþar sem hann sem dró í efa að Epstein hefði í raun svipt sig lífi. Hélt grínistinn því fram að Epstein hefði „haft upplýsingar um Clinton og nú er hann dauður“.

„Við vitum hver gerði þetta,“ sagði grínistinn Terrence K. Williams og hvatti fylgjendur sína til að áframtísta ef þetta „kæmi þeim ekki á óvart“. Með fylgdi mynd af bæði Bill og Hillary Clinton.

Trump var spurður um þetta áframtíst af blaðamönnum í dag. Sagði hann Williams vera afar virtan álitsgjafa á hægri vængnum.

„Þetta var áframtíst. Þetta var komið frá honum, ekki mér,“ sagði Trump. „Hann er maður sem er með hálfa milljón fylgjenda, það eru margir fylgjendur og hann er virtur,“ sagði Trump og bætti því við að þetta væri í góðu lagi.

Fátt bendir hins vegar til þess að Williamssé jafn virtur og Trump telji en á vef VOX í Bandaríkjunumer bent á að Williams hafi síðast verið í fréttum vegna rasískra ummæla hans á FOX News sjónvarpstöðinni um blaðakonuna Sara Jeoung sem þóttu svosvívirðileg að viðtalinu við hann var skyndilega hætt.

Aðspurður hvort Trump tryði því að Clinton-fjölskyldan væri eitthvað viðriðin dauða Epstein svaraði Trump að hann vissi ekkert um það. Sagðist hann þó vita að Bill Clinton hefði sést í flugvél Epstein í 27 skipti og að blaðamenn þyrftu að komast að því hvort Clinton hafi verið gestur einkaeyju Epstein í Karíba-hafinu. Eyjan hefurverið nefnd „Barnaníðingaeyjan“.

Forsetaframbjóðendur Demókrata hafa gagnrýnt Trump harðlega vegna hins umdeilda áframtísts. Beto O‘Rourke, frambjóðandi í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári, sagði áframtíst Trump enn eitt dæmið um að hann notaði opinbert embætti sitt til að ráðast á andstæðinga sína með rakalausum samsæriskenningum.

Auk samsæriskenninganna um Clinton og Barack Obama sakaði Trump föður Teds Cruz, mótherja síns í forvali repúblikana árið 2016, um að hafa átt þátt í morðinu á John F. Kennedy forseta. Cruz fordæmdi Trump þá sem lygara.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.