Innlent

Opna á leiðina að Brúarárfossi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brúarárfoss í Brúará.
Brúarárfoss í Brúará. Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Umhverfisstofnun hefur dregið til baka ákvörðun um að leggja dagsektir á eigendur jarðarinnar Ártungu í Bláskógabyggð. Stofnunin boðaði sektirnar fyrir þremur vikum vegna „ólögmætra hindrana á almannarétti meðfram bökkum Brúarár“, eins og segir í bréfi stofnunarinnar.

Fimm dögum eftir að bréfið þar sem dagsektirnar voru boðaðar var sent fékk Umhverfisstofnun tölvupóst frá landeigandanum. Kvaðst hann hafa stækkað op á girðingu í 2,3 metra og fjarlægt þann hluta af skiltum á staðnum þar sem sagði að öll umferð væri bönnuð.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar fóru samdægurs á svæðið í eftirlitsferð til að kanna aðgengi meðfram Brúará að Brúarárfossi. Sannreyndu þeir að skiltið með áletruninni um að öll umferð væri bönnuð væri horfið og að eftir stæði skilti sem á stæði „Private Property“, eða einkaland. Var þá ákveðið að falla frá dagsektunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×