Körfubolti

Tryggvi stóð fyrir sínu í mikilvægum sigri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason
Tryggvi Snær Hlinason Zaragoza basket

Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Zaragoza unnu mikilvægan sigur í síðasta leik sínum fyrir jól í spænsku úrvalsdeildinni í gær þegar þeir heimsóttu Unicaja Malaga.

Leikurinn var afar spennandi en Zaragoza fór að lokum með sex stiga sigur af hólmi, 75-81, og styrkti liðið þar með stöðu sína í 2.sæti deildarinnar en þeir munu að öllum líkindum deila því með stórliði Barcelona yfir hátíðarnar þar sem Börsungar eiga leik í kvöld. Á toppnum trónir Real Madrid með einum sigri meira.

Tryggvi Snær skilaði sex stigum, tók tvö fráköst og gaf eina stoðsendingu á þeim 14 mínútum sem hann spilaði.

Tryggvi hefur verið í nokkuð stóru hlutverki í firnasterku liði Zaragoza í vetur en liðið er í góðum málum, bæði í deildinni og Evrópukeppni. Hann var í viðtali við heimasíðu Þórs á dögunum þar sem hann ræðir meðal annars sína frammistöðu í vetur en hann er alinn upp hjá Akureyrarliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×