Erlent

Árásarmennirnir sagðir hafa valið verslun gyðinga sérstaklega

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftir um fjögurra klukkustunda skotbardaga lágu báðir árásarmennirnir, lögregluþjónn og þrír almennir borgarar í valnum. Tveir lögregluþjónar til viðbótar særðust.
Eftir um fjögurra klukkustunda skotbardaga lágu báðir árásarmennirnir, lögregluþjónn og þrír almennir borgarar í valnum. Tveir lögregluþjónar til viðbótar særðust. AP/Eduardo Munoz Alvarez

Steven Fulop, borgarstjóri Jersey-borgar, segir þungvopnaða árásarmenn sem skutu fjóra til bana í borginni í gær, hafa sérstaklega valið að ráðast á verslun gyðinga. Hann fór þó ekki nánar út í þá staðhæfingu og sagði ekki hvort árásin sneri að gyðingahatri. Eftir um fjögurra klukkustunda skotbardaga lágu báðir árásarmennirnir, lögregluþjónn og þrír almennir borgarar í valnum. Tveir lögregluþjónar til viðbótar særðust.

Árásin er ekki talin tengjast hryðjuverkastarfsemi.

Árásin hófst í rauninni við kirkjugarð í Jersey þegar lögregluþjónn reyndi að stöðva tvo menn sem voru með stöðu grunaðra í morðmáli, samkvæmt New York Times. Þeir skutu lögregluþjóninn þó til bana og keyrðu á brott á stolnum bíl.



Skömmu seinna stöðvuðu þeir í hverfi strangtrúaðra gyðinga og ruddu sér leið inn í verslun. Eftir skotbardagann voru þeir báðir dánir og þrír aðrir í versluninni. Annað hvort starfsmenn eða viðskiptavinir.

Lögreglan sagði í fyrstu að talið væri að mennirnir hefðu valið verslunina af handahófi.

Lögreglan segir allar líkur á því að almennu borgararnir í versluninni hafi ekki verið skotnir af lögreglu. Þeir hafi verið skotnir af árásarmönnunum þegar þeir ruddust inn í verslunina. Ekki er búið að opinbera nöfn árásarmannanna né annarra sem dóu þar.

Blaðamaður AP fréttaveitunnar ræddi við rabbína í bænahúsi sem er við hlið verslunarinnar. Hann sagði eiganda hennar hafa nánast verið að labba þar út þegar mennirnir ruddust inn. Eiginkona hans hafi þó verið þar enn.

Eftir að mennirnir voru felldir fann lögreglan einhvers konar sprengju í bílnum sem þeir höfðu stolið.

Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd sem birt voru á samfélagsmiðlum í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×