Körfubolti

Craion ekki með slitið krossband | Jón Arnór ekki meira með á árinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Craion er ekki alvarlega meiddur.
Craion er ekki alvarlega meiddur. vísir/bára

Michael Craion, leikmaður KR, er ekki alvarlega meiddur eins og óttast var. Jón Arnór Stefánsson leikur hins vegar ekki meira með KR á þessu ári.

Craion missti af leik KR og Grindavíkur í Geysisbikar karla á föstudaginn vegna hnémeiðsla. Hann fór í skoðun á mánudaginn.

„Þetta er ekki slitið, brotið eða neitt svoleiðis. Sem betur fer er þetta ekki alvarlegt,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, í samtali við Vísi.

Craion er bólginn og ekki liggur ljóst fyrir hvort hann spili gegn Val í Domino's deild karla annað kvöld.

„Það verður að koma í ljós hvort hann verði með á morgun. Við vitum það ekki,“ sagði Ingi.

Jón Arnór glímir við meiðsli og verður ekki með KR í síðustu tveimur leikjum liðsins á árinu.

„Jón er dottinn út. Hann hefði átt að stoppa eftir leikinn gegn Keflavík,“ sagði Ingi. Jón Arnór meiddist í leiknum gegn Tindastól fyrir rúmum mánuði og hefur verið á annarri löppinni í síðustu leikjum KR.

Eins og greint var frá fyrr í vikunni þurfti Kristófer Acox að leggjast inn á spítala vegna nýrnabilunar. Ingi segir að hann verði frá næstu vikurnar.

KR hefur tapað þremur leikjum í röð í deild og bikar og fimm af síðustu sex leikjum sínum.


Tengdar fréttir

Þetta var stærsta tap KR-inga í sögunni

43 stiga tap KR-inga á móti Stjörnunni í Domino´s deild karla í síðustu viku var stærsta tap KR í efstu deild karla frá upphafi. Þeir "bættu“ gamla metið um tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×