Körfubolti

Þetta var stærsta tap KR-inga í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon hefur spilað í tveimur stærstu tapleikjum KR og var spilandi þjálfari liðsins í öðru þeirra.
Helgi Már Magnússon hefur spilað í tveimur stærstu tapleikjum KR og var spilandi þjálfari liðsins í öðru þeirra. Vísir/Daníel
43 stiga tap KR-inga á móti Stjörnunni í Domino´s deild karla í síðustu viku var stærsta tap KR í efstu deild karla frá upphafi. Þeir „bættu“ gamla metið um tvö stig.

Ingi Þór Steinþórsson átti einu sinni metið yfir þann þjálfara sem hafði unnið KR með mestum mun í efstu deild en nú á hann metið yfir stærsta tap þjálfara KR í efstu deild.

KR-ingar bættu rúmlega sjö ára gamalt met þegar þeir töpuðu með 43 stigum í Garðabæ en gamla metið var 41 stigs tap á heimavelli 25. október 2012.

KR tapaði þá 63-104 á móti Snæfelli sem var þá undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar, núverandi þjálfara KR-liðsins.

Þrír leikmenn KR-liðsins í Stjörnuleiknum á dögunum voru einnig með í leiknum á móti Snæfelli. Þeir hafa allir tekið þátt í tveimur stærstu tapleikjum KR í efstu deild karla í körfubolta. Þetta eru þeir Brynjar Þór Björnsson, Helgi Már Magnússon og Kristófer Acox.

Ágúst Angantýsson hjálpaði Stjörnunni að vinna þennan stórsigur á KR en hann lék með KR-liðinu í skellinum á móti Snæfelli fyrir sjö árum.

Þriðja stærsta tapið, sem átti metið í 25 ár, var 40 stiga tap KR-inga í Keflavík í ársbyrjun 1987. Guðjón Skúlason lék þá hundraðasta leik sinn fyrir Keflavík og var stigahæstur á vellinum með 24 stig.

Stærstu töp KR í efstu deild karla í körfubolta

43 stiga tap

2019 á móti Stjörnunni (67-110)

41 stigs tap

2012 á móti Snæfelli (63-104)

40 stiga tap

1987 á móti Keflavík (52-92)

38 stiga tap

1962 á móti ÍR (42-80)

37 stiga tap

1999 á móti Njarðvík (65-102)

36 stiga tap

1958 á móti ÍKF (24-60)

34stiga tap

1992 á móti Val (79-113)

31stigs tap

1988 á móti Keflavík (50-81)

1998 á móti Njarðvík (74-105)

30 stiga tap

1989 á móti Njarðvík (66-96)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×