Erlent

Biður breskan almenning um að standa með sér

Sylvía Hall skrifar
Virginia Giuffre, konan sem hefur sakað Andrés prins um að nauðga sér þrisvar sinnum þegar hún var 17 ára.
Virginia Giuffre, konan sem hefur sakað Andrés prins um að nauðga sér þrisvar sinnum þegar hún var 17 ára. vísir/getty

Í viðtali sem sýnt verður á BBC í kvöld tjáir Virginia Giuffre sig í fyrsta sinn við breska fjölmiðla. Giuffre er ein þeirra kvenna sem hafa sakað Andrés prins um kynferðisbrot og segir hún prinsinn hafa verið fullmeðvitaðan um glæpi auðkýfingsins Jeffrey Epstein.



„Hann er versti dansari sem ég hef séð á ævi minni. Það var hræðilegt, hann var að svitna yfir mig alla,“ segir Giuffre í viðtalinu þegar hún rifjar upp fyrstu kynni sín af prinsinum. Hún segist hafa þurft að spila með og halda honum ánægðum því það var það sem Epstein og Ghislaine Maxwell, samstarfskona hans, ætluðust til.



Giuffre segist hafa verið flutt til Bretlands aðeins sautján ára gömul til þess að stunda kynlíf með prinsinum. Henni hafi verið sagt að gera fyrir prinsinn það sem hún hafði áður gert fyrir Epstein.



Sjá einnig: Lýsir fyrstu kynnum sínum af Andrési prins og segir hann hafa verið virkan þátttakanda



Hún segir prinsinn vita upp á sig sökina, þó hann haldi fram sakleysi sínu. Hún nefnir ljósmynd sem var tekin af þeim saman þar sem prinsinn heldur utan um hana og segir það ekki rétt að átt hafi verið við myndina. Því biðlar hún til bresks almennings um að standa með sér.



„Ég grátbið fólkið í Bretlandi að standa með mér, að hjálpa mér að heyja þessa orrustu og ekki horfa á þetta sem eðlilegan hlut. Þetta er ekki einhver kynlífssaga, þetta er saga um mansal,“ segir Giuffre.



Viðtalið verður sýnt í fréttaskýringarþætti á BBC í kvöld sem ber heitið Prinsinn og Epstein-hneykslið (e. The Prince and the Epstein Scandal). Unnið hefur verið að gerð þáttarins, sem mun fjalla um tengsl Andrésar við Epstein-hneykslið, mánuðum saman og verður þátturinn lengri en vaninn er.


Tengdar fréttir

Eins og að horfa á mann sökkva í kviksyndi

Lögmaður fimm þolenda barnaníðingsins og auðjöfursins Jeffreys Epstein segir að viðtal BBC við Andrés Bretaprins, vin Epsteins, um ásakanir gegn prinsinum hafi verið hamfarakennt.

Andrés prins hættir opinberum störfum

Elísabet II Bretlandsdrottning hefur samþykkt ósk Andrésar prins um að hann hætti að sinna skyldum sínum fyrir konungsfjölskylduna um ófyrirsjáanlega framtíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×