Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 31-23 | Fjórði sigur Valsmanna í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Óli skoraði fimm mörk.
Magnús Óli skoraði fimm mörk. vísir/daníel
Valur vann sinn fjórða leik í röð í Olís-deild karla þegar KA kom í heimsókn. Lokatölur 31-23, Valsmönnum í vil.

Markverðir Vals voru frábærir í leiknum. Hreiðar Levý Guðmundsson varði 16 skot (59%) í fyrri hálfleik og Daníel Freyr Andrésson ellefu (50%) í þeim seinni.

Sóknarleikur KA var afleitur í fyrri hálfleik, sérstaklega framan af. KA-menn tóku hvert fáránlega skotið á fætur öðru og virtust ófærir um að taka rétta ákvörðun í sókninni.

Hreiðar var frábær í Valsmarkinu í upphafi leiks. Eftir 13 mínútur var hann búinn að verja níu af þeim ellefu skotum sem hann fékk á sig. Hann varði sjö skot til viðbótar í fyrri hálfleik.

Valsmenn komust fimm mörkum yfir, 7-2, en fóru þá sjálfir að gera skyssur í sókninni og hleyptu KA-mönnum aftur inn í leikinn. Gestirnir skoruðu fimm mörk í röð og jöfnuðu í 7-7.

Valssóknin hrökk í baklás og heimamenn skoruðu ekki í tíu mínútur. Anton Rúnarsson braut loks ísinn þegar hann kom Val í 8-7. Valsmenn voru með frumkvæðið sem eftir lifði fyrri hálfleiks og þegar liðin gengu til búningsherbergja var munurinn tvö mörk, 13-11.

Valsmenn voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik en slitu sig ekki frá KA-mönnum fyrr en um tíu mínútur voru til leiksloka.

Sóknarleikur Vals var mjög góður í seinni hálfleik þar sem liðið skoraði 18 mörk. Þá héldu heimamenn uppteknum hætti í vörninni og gerðu sóknarmönnum gestanna erfitt fyrir.

Á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 31-23. Með sigrinum komst Valur upp í 6. sæti deildarinnar. KA er í því áttunda.

Af hverju vann Valur?

Þótt Valur hafi ekki stungið KA af fyrr en undir lokin var miklu betri heildarbragur á leik heimamanna. Sóknin var misjöfn í fyrri hálfleik en góð í þeim seinni.

Vörn Valsmanna var hins vegar frábær allan leikinn og KA-menn áttu í miklum vandræðum með að opna hana.

Þá voru markverðir Vals í stuði eins og áður sagði. Það er erfitt að tapa leik þegar þú ert með 27 varin skot (55%).

Hverjir stóðu upp úr?

Markverðir Vals eins og áður sagði. Finnur Ingi Stefánsson og Stiven Tobar Valencia voru góðir í hornunum og skiluðu samtals ellefu mörkum. Anton stóð fyrir sínu og Magnús Óli Magnússon átti góða kafla.

Ýmir Örn Gíslason og Þorgils Jón Svölu Baldursson voru svo öflugir í hjarta Valsvarnarinnar. Sá síðarnefndi er algjörlega óþreytandi og örugglega óþolandi að spila á móti.

Dagur Gautason var langbesti leikmaður KA en hann skoraði sjö mörk úr jafnmörgum skotum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur KA gekk smurt í síðasta leik þrátt fyrir að Áki Egilsnes hafi lítið spilað. Hann var fjarri góðu gamni í kvöld og KA-menn söknuðu hans sárlega. Sókn gestanna var lengst af afleit og þeim gekk illa að koma sér í góð skotfæri. Og þegar það tókst vörðu markverðir Vals oftar en ekki. Skotnýting KA var aðeins 43%.

Patrekur Stefánsson, sem hefur leikið svo vel í vetur, skaut og skaut en ekkert gekk upp hjá honum. Hann endaði með þrjú mörk í 14 skotum. Daníel Örn Griffin átti einnig erfitt uppdráttar og þá hefur Jovan Kukobat oft leikið betur í markinu. Þrátt fyrir það kom varamarkvörðurinn Svavar Ingi Sigmundsson ekkert inn á nema til að reyna við eitt vítakast.

Hvað gerist næst?

Valsmenn halda nú til Austurríkis þar sem þeir mæta Bregenz í tveimur leikjum um helgina í Áskorendabikar Evrópu.

Valur og KA eiga svo bæði erfiða bikarleiki í næstu viku. Miðvikudaginn 20. nóvember sækir KA Aftureldingu heim og Valur mætir Haukum á Ásvöllum degi síðar.

Snorri var ánægður með hvernig sínir menn leystu varnarleik KA.vísir/daníel
Snorri Steinn: Eina meðalið er að vinna leiki

„Eins og oft áður var vörnin þétt og markverðirnir voru báðir mjög góðir í leiknum. Við byrjuðum vel en ég var óánægður með kafla í fyrri hálfleik þar sem við hleyptum þeim inn í leikinn. Þeir gerðu það vel og við vorum í smá vandræðum í sókninni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir sigurinn á KA í kvöld.

„Svo var meiri kraftur og áræðni í sóknarleiknum í seinni hálfleik. Þeir spila ákveðna 3-2-1 vörn sem getur slegið lið út af laginu.“

KA-menn héldu lengi vel í pilsfaldi Valsmanna. Munurinn var tvö mörk í hálfleik, 13-11, en í seinni hálfleik var Valur alltaf með frumkvæðið og vann að lokum átta marka sigur.

„KA er með flott lið og þeir berjast hrikalega vel. Þeir eru fastir fyrir en við mættum þeim í baráttunni. Þeir skoruðu lítið, voru í brasi í sókninni og reyndu alls konar hluti en mér fannst við leysa það vel,“ sagði Snorri.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur Valur nú unnið fjóra leiki í röð.

„Þegar við vorum í krísunni sagði ég að eina meðalið væri að vinna leiki,“ sagði Snorri.

„Það gerir öllum liðum gott. Við þurftum nauðsynlega á því að halda og erum búnir að vinna fjóra leiki í röð. En við förum ekki fram úr okkur. Byrjunin er alveg eins og hún var. Við breytum henni ekkert.“

Jónatan var ósáttur við sóknarleik KA.vísir/bára
Jónatan: Fundum ekki svör við varnarleik Vals

Jónatan Magnússon, annar þjálfara KA, sagði að sóknarleikur liðsins hafi ekki verið nógu góður gegn Val í kvöld.

„Við fundum ekki svör við varnarleik Vals. Markverðirnir þeirra voru líka góðir,“ sagði Jónatan eftir leik.

Leikurinn var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna en KA missti Val fram úr sér undir lokin.

„Það vantaði herslumuninn. Við reyndum að berja okkur inn í þetta, komum til baka eftir ömurlega byrjun og munurinn í hálfleik var bara tvö mörk. Síðan molnaði undan þessu. Þetta var næstum því í dag,“ sagði Jónatan.

Áki Egilsnes var ekki með KA í kvöld vegna meiðsla. Hann lék einnig lítið gegn FH í síðustu umferð en þá leysti KA fjarveru hans miklu betur en í kvöld.

„Í síðasta leik vorum við með lausnir og það var betri taktur í okkar leik. Vörnin hjá Val var góð og við náðum ekki að hreyfa hana nógu vel. Þeir töpuðu varla návígi,“ sagði Jónatan.

„Þegar við komum okkur í færi vörðu þeir svo oft. Þetta var mjög erfitt í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira