Innlent

Báturinn sem strandaði á Rifs­tanga á leið til Raufar­hafnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá strandstað á Rifstungu.
Frá strandstað á Rifstungu. landsbjörg

Uppfært kl. 08:59 með eftirfarandi tilkynningu frá Landhelgisgæslunni:

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning á sjöunda tímanum í morgun um að línubátur væri strandaður við Rifstanga á Melrakkasléttu. Tveir voru um borð.

TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, var kölluð út sem og björgunarskipið Gunnbjörg frá Raufarhöfn auk sjóbjörgunarsveita á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Þá voru bátar sem voru í grenndinni einnig beðinn um að halda á vettvang. Rúmri klukkustund eftir strandið tókst björgunarskipinu Gunnbjörgu að draga línubátinn af strandstað.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá afturkölluð sem og aðrar bjargir.  

Línubáturinn er nú á leið til Raufarhafnar.


Björgunarsveitir af Norðausturlandi, björgunarbáturinn Gunnbjörg frá Raufarhöfn og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kölluð út á sjötta tímanum í morgun vegna báts sem hafði strandað á Rifstanga, um 100 metra frá fjörunni. Tanginn er nyrst á Melrakkasléttu.

Fyrst var greint frá málinu á vef Morgunblaðsins. Tveir menn eru um borð í bátnum að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, og komu fyrstu aðilar á vettvang upp úr klukkan 07:45.

Annars vegar voru það björgunarsveitarmenn frá Raufarhöfn og hins vegar fiskveiðibáturinn Geir. Þá er björgunarbáturinn Gunnbjörg kominn á staðinn en þyrlu Landhelgisgæsluna sem lagði af stað úr Reykjavík var snúið við.

Alltaf er hætta á ferðum þegar bátur strandar en að sögn Davíðs Más er mesta hættan nú yfirstaðin. Um klukkan 08:30 tókst björgunarskipinu að draga bátinn á flot en talið er að ekki sé kominn leki að bátnum.

Því verður það athugað hvort báturinn geti siglt til heimahafnar á eigin vélarafli og verður honum þá fylgt af björgunarskipinu en ef það gengur ekki mun björgunarskipið draga bátinn til hafnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.