Skoðun

Ferðamannaborgin Reykjavík

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar
Í samstarfi við helstu hagsmunaaðila vinnur Reykjavíkurborg nú að nýrri ferðamálastefnu, sem á að leiða veginn að Reykjavík sem spennandi áfangastað fyrir ferðamenn, í sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu. Lokaskrefin nú eru að vinna úr tillögum sem komu úr opnu umsagnarferli svo til verði fullmótuð stefna um snjalla, aðgengilega og umhverfisvæna ferðamannaborg.

Ferðaþjónustan er mikilvæg stoð atvinnulífsins, sem skapar fyrirtækjum, einstaklingum og opinberum aðilum miklar tekjur. Hún hefur líka verið jákvæður drifkraftur í þróun og uppbyggingu borgarinnar. Nú er tímabært að skapa ferðamennsku í Reykjavík heildstæðan ramma til að þessi atvinnugrein geti vaxið á sjálfbæran hátt. Á undanförnum áratug hefur fjöldi ferðamanna stóraukist með tilheyrandi áhrifum á mannlíf borgarinnar, íbúana og atvinnulífið. Þessi gróska hefur einnig reynt á innviði borgarinnar og þolrif íbúa, ekki síst þeirra sem búa nærri miðborginni. Því er mikilvægt að uppbygging borgarinnar, sem áfangastaðar ferðamanna, verði í sem mestri sátt á milli íbúa og ferðaþjónustunnar og að Reykjavíkurborg efli bæði samtal og upplýsingagjöf. Meginmarkmið ferðamálastefnunnar eru þrjú. Að Reykjavík sé lifandi og framsækin mannlífsborg, umvafin einstakri náttúru. Lögð verður áhersla á sérstöðu Reykjavíkur og hennar skapandi listalíf, öflugt þekkingarstarf og hágæðaþjónustu en líka einstaka náttúru.

Að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu í sátt við samfélagið, m.a. með því að stefna að kolefnisjafnaðri ferðaþjónustu með minni neikvæðum umhverfisáhrifum, betur dreifðu álagi um borgina og með auknu samtali við íbúa.

Að stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, sem snýr að ferðaþjónustu, verði samræmt, einfaldað, skilvirkt og snjallt með markvissri uppbyggingu stafrænna lausna fyrir gesti, borg og borgarbúa. Ferðamálastefnan á að verða leiðarvísir að betri borg sem auðgar líf okkar allra, hvort sem við búum hér, störfum eða erum velkomnir gestir.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×