Innlent

Garnaveiki í sauðfé á Tröllaskaga

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Garnaveiki er staðfest í sauðfé í Tröllaskagahólfi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Garnaveiki er staðfest í sauðfé í Tröllaskagahólfi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Garnaveiki hefur verið staðfest á sauðfjárbúi í Tröllaskagahólfi, nánar tiltekið á bænum Brúnastöðum í Fljótum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Tilfellið uppgötvaðist við smölun um síðustu helgi og eftir að héraðsdýralæknir hafði skoðað kindina, sem var grunuð um að vera smituð, var henni lógað, sýni tekið úr henni og sent til greiningar á Keldum. Sýnið reyndist jákvætt með tilliti til garnaveiki.

Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum, en með bólusetningu er hægt að verja sauðfé fyrir sjúkdómnum og halda smitálagi í lágmarki. Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu.

Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki. Helstu einkenni eru hægfara vanþrif með skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitabera“. Meðgöngutími í sauðfé er eitt til tvö ár.

Bakterían veldur bólgum í mjógörnum og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1-1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttagirðingar, í sláturúrgangi og á fleiri stöðum.

Í tilkynningu Matvælastofnunnar segir jafnframt að mikilvægt sé að huga að því að smit geti borist með landbúnaðartækjum, heyi, áburði og er flutningur á öllu slíku frá garnaveikibæjum óheimill.

Tilkynningu Matvælastofnunar má lesa í heild sinni hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×