Körfubolti

Tékkar unnu Pólverja og spila um 5. sætið á HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Tékklands og Póllands á HM í körfubolta.
Úr leik Tékklands og Póllands á HM í körfubolta. Vísir/Getty
Leikur dagsins var einkar kaflaskiptur ef frá er talinn 1. leikhluti leiksins en staðan að honum loknum var 23-23 og ljóst að það stefndi í fjörugan leik.

Í 2. leikhluta voru Tékkar sterkari aðilinn en Pólverjar fundu engar glufur á sterkri vörn Tékka í leikhlutanum. Alls settu Pólverjar aðeins 12 stig gegn 20 hjá Tékkum og staðan því 43-35 Tékkum í vil þegar flautað var til hálfleiks.

Pólverjar komu inn í síðari hálfleik af miklum krafti og unnu 3. leikhluta með sjö stiga mun. Það munaði því aðeins einu stigi á liðunum fyrir 4. og síðasta leikhluta leiksins.

Það virtist hins vegar sem að Pólverjar hefðu sprengt sig í 3. leikhluta en Tékkar skoruðu alls 30 stig í 4. leikhluta gegn 21 hjá Pólverjum og fór það því svo að Tékkar unnu á endanum 10 stiga sigur, lokatölur 94-84.

Vojtech Hruban var stigahæstur í liði Tékka með 24 stig. Þar á eftir kom Tom Satoransky með 22 stig ásamt því að gefa 12 stoðsendingar. Hjá Pólverjum var Adam Waczynski stigahæstur með 22 stig.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.