Sport

Serena Williams frábær og komin í enn einn úrslitaleikinn á risamóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams eftir sigurinn í nótt.
Serena Williams eftir sigurinn í nótt. Getty/Tim Clayton
Bandaríska tennisgoðsögnin Serena Williams fær tækifæri til að vinna sinn 24. risatitil á morgun þegar hún spilar til úrslita á Opna bandaríska meistaramótinu í New York.

Serena Williams spilaði frábærlega í undanúrslitaleik sínum á móti Elinu Svitolina frá Úkraínu og vann settin 6-3 og 6-1.

Willams hefur unnið Opna bandaríska meistaramótið sex sinnum á ferlinum en hún mætir 19 ára kanadískri stúlku, Bianca Andreescu, í úrslitaleiknum í ár. Willams er 37 ára eða átján árum eldri.





Bianca Andreescu vann 7-6 (7-3) 7-5 sigur á Svisslendingnum Belinda Bencic í sínum úrslitaleik og vann þar fimm síðustu stigin í lokasettinu.

Bianca Andreescu er að keppa í aðalkeppni Opna bandaríska meistaramótsins í fyrsta sinn og þetta er aðeins hennar fjórða risamót á ferlinum. Andreescu fæddist níu mánuðum eftir að Serena Williams vann sinn fyrsta titil á Opna bandaríska meistaramótinu árið 1999.

Serena Williams er enn að reyna að vinna sitt fyrsta risamót síðan að hún eignaðist barn í september 2017. Hún getur með sigri unnið sinn 24. risatitil á ferlinum og jafnað um leið met hinnar áströlsku Margaret Court sem vann 24 risatitla frá 1960 til 1973.





Serena Williams hefur komist þrisvar sinnum í úrslitaleik á risamóti síðan að hún eignaðist dótturina Olympia fyrir tveimur árum þar á meðal tvö ár í röð á Wimbledon og á Opna bandaríska mótinu í fyrra. Hún hefur hins vegar tapað öllum þremur leikjunum.

Það er ekki langt síðan að þetta leit ekki alltof vel út hjá Serenu Williams því hún var að glíma við meiðsli og ekki líkleg til afreka. Hin bandaríska hefur aftur á móti spilað frábærlega í New York síðustu daga og fær nú enn á ný tækifæri til að verða sú sigursælasta frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×