Körfubolti

Serbarnir ógnarsterkir á HM í körfubolta í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Boban Marjanović og félagar í Serbíu hafa haft mikla yfirburði til þessa í leikjum sínum á HM í Kina.
Boban Marjanović og félagar í Serbíu hafa haft mikla yfirburði til þessa í leikjum sínum á HM í Kina. Getty/Zhong Zhi

Serbía og Pólland héldu sigurgöngu sinni áfram á heimsmeistaramótinu í körfubolta í Kína þegar keppni í milliriðlum hófst í morgun. Það var þó mikill munur á mótstöðunni sem liðin fengu í fyrsta leiknum í sínum milliriðli.

Pólverjar voru lengstum undir á móti Rússland en 11-1 sprettur í byrjun fjórða leikhluta kom liðinu í gang og inn í leikinn. Pólverjar unnu á endanum fimm stiga sigur, 79-74, eftir spennuleik. Pólska liðið vann lokaleikhlutann 26-17.

Adam Waczynski var atkvæðamestur í liði Póllands með 18 stig en Mateusz Ponitka skoraði 14 stig og tók 9 fráköst. Damian Kulig var síðan með 10 stig og 7 fráköst á rúmum 15 mínútu. Mikhail Kulagin var stigahæstur hjá Rússum með 21 stig.

Serbía lék sér að Púertó Ríkó í fyrsta leik sínum í milliriðlinum og hefur nú unnið alla fjóra leiki sína á mótinu með samtals 163 stigum eða með 40,8 stigum að meðaltali. Minnsti sigur liðsins var 15 stiga sigur á Ítölum.

Serbía vann Púertó Ríkó í dag með 43 stiga mun, 90-47, en liðsmenn Serbíu sundurspiluðu andstæðinga sína hvað eftir annað. Serbar eru með alla sína bestu leikmenn á mótinu og þeir eru mjög sigurstranglegir á HM í ár miðað við þessa byrjun á heimsmeistaramótinu.

Nemanja Bjelica (Sacramento Kings) var stigahæstur með 18 stig á rúmum 17 mínútum en risinn Boban Marjanović (Philadelphia 76ers) skoraði 16 stig á 16 mínútum og Nikola Jokić (Denver Nuggets) var með 14 stig og 10 fráköst á tæpum sautján mínútum. Það skipti engu þótt stórstjarnan Bogdan Bogdanović (Sacramento Kings) hafi aðeins hitt úr 1 af 8 skotum og endað bara með 5 stig.


Úrslit í milliriðlum í keppni um 1. til 16. sæti á HM í Körfubolta í Kína:

I-riðill
Pólland - Rússland 79-74
Argentína - Venesúela (Seinna í dag)
Röð þjóða (Sigrar-töp): Pólland 4-0, Argentína 3-0, Rússland 2-2, Venesúela 2-1.

J-riðill
Serbía - Púertó Ríkó 90-47
Spánn - Ítalía (Seinna í dag)
Röð þjóða (Sigrar-töp):  Serbía 4-0, Spánn 3-0, Ítalía 2-1, Púertó Ríkó 2-2

Úrslit í keppni um sæti 17. til 32. sæti:
Nígería - Fílabeinsströndin 83-66
Angóla - Íran  62-71Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.