Innlent

Forsetinn stað­festi þriðja orku­pakkann í dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, staðfesti í dag breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, staðfesti í dag breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun. Fréttablaðið/Ernir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, undirritaði og staðfesti tvenn lög í dag, lög um breytingu á raforkulögum og lög um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu forseta í dag.

Ný lög voru endurstaðfest af forseta á ríkisráðsfundi í dag en þau voru samþykkt á Alþingi á mánudaginn, 2. september.

Miklar umræður hafa verið um þriðja orkupakkann svokallaða undanfarna mánuði og í yfirlýsingu forseta segir að umræður hafi varað mánuðum saman áður en frumvarpið var lagt fyrir Alþingi þann 1. apríl síðastliðinn.

Þá var Guðna afhent áskorun sem alls 7.643 einstaklingar skrifuðu undir. Þá stendur í yfirlýsingu forseta að tekið hafi verið fram á síðunni þar sem undirskriftum var safnað að hægt væri að „skrá sig sjálfan, fjölskyldumeðlimi og vinnufélaga.“ Það hefur síðan verið tekið út. Áskorunin var afhent forseta í gær og hljóðaði svo:

„Við undirrituð skorum á þig forseta lýðveldisins Íslands Hr. Guðna Th. Jóhannesson að beita málskotsrétti þínum til þjóðarinnar skv. 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og synja staðfestingar á hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga sem fela í sér afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum okkar, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd, og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þá þakkar forseti þeim sem hafa lýst yfir áhyggjum á orkupakkanum þriðja fyrir það að deila sínum skoðunum á málinu. Forseti bendir hins vegar á að ef hann kysi að nýta sér synjunarrétt forseta samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar yrði það ekki til þess að málið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þann rétt er ekki að finna í stjórnskipun lýðveldisins.

„Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar eru teknar með stjórnskipulegum fyrirvara ef breyta þarf lögum vegna innleiðingar þeirra. Slíkum fyrirvara er aflétt með þingsályktunartillögu í samræmi við 21. gr stjórnarskrárinnar um það hvenær Alþingi þarf að koma að gerð þjóðréttarsamninga. Þingsályktunartillögur Alþingis eru ekki lagðar fyrir forseta, hvorki til upplýsingar né samþykktar eða synjunar,“ þetta segir í yfirlýsingu forseta.

„Fari svo að Alþingi samþykki að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara veitir þingið ríkisstjórn hins vegar heimild til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ákvarðanir eru lagðar fyrir forseta til staðfestingar, með vísan til áðurnefndar 21. greinar stjórnarskrárinnar sem kveður á um að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki.“

Telur að breyta þurfi stjórnarskrá

Guðni tekur það fram í yfirlýsingunni að hann hafi lýst stuðningi við það að í stjórnarskrá lýðveldisins yrði ákvæði bætt við þar sem tryggt væri að tiltekinn fjöldi kjósenda gæti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög Alþingis. Það er að ef ákveðinn hluti þjóðar krefðist þjóðaratkvæðagreiðslu yrði að fylgja því eftir.

Þá telur forseti að breyta þurfi ákvæðum sem snúa að forseta Íslands og segir ákvæði stjórnarskrár sem snúi að forseta orðuð þannig að þau dragi ekki upp rétta mynd af stjórnskipun landsins nema þau séu lesin í samhengi við hvert annað.

„Ég kvaðst einnig styðja aðrar stjórnarskrárbreytingar, ekki síst að ákvæði um forseta Íslands yrðu endurskoðuð þannig að þau lýstu á skýrari hátt stöðu forseta en bæru ekki sterkan keim af uppruna í konungsríki fyrir daga þingræðis og lýðræðis.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×