Körfubolti

Pedersen: Hef ekki hugsað út í framhaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pedersen sagði að íslenska sóknin hefði hrokkið í baklás eftir því sem leið á leikinn.
Pedersen sagði að íslenska sóknin hefði hrokkið í baklás eftir því sem leið á leikinn. vísir/bára

Hljóðið var þungt í Craig Pedersen, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, eftir tapið fyrir Sviss, 109-85, í forkeppni undankeppni EM 2021 í kvöld. Ísland mátti tapa með 19 stiga mun en allt fór á versta veg í leiknum.

„Við erum að sjálfsögðu vonsviknir. Við getum spilað betur en það tókst ekki í dag. Sviss spilaði af miklum krafti. Við byrjuðum leikinn frábærlega og hittum vel. En sóknin þeirra hélt dampi á meðan okkar dalaði,“ sagði Pedersen í samtali við Vísi í kvöld.

„Þeir tóku of mörg sóknarfráköst og tóku miklu fleiri skot en við. Sóknarfráköstin skiluðu þeim mörgum auðveldum körfum.“

Sviss skoraði fjögur stig í síðustu sókn sinni í 1. leikhluta. Munurinn var því fjögur stig en ekki átta eftir 1. leikhluta.

„Það hefði verið gott að vera átta stigum yfir. Kannski gaf það þeim von,“ sagði Pedersen um lokasókn Svisslendinga í 1. leikhluta.

Ísland missti öll tök á leiknum í fjórða og síðasta leikhlutanum og Sviss gekk á lagið.

„Fyrir lokaleikhlutann vorum við ellefu stigum undir en við misstum þá of hratt frá okkur. Þá þurftum við að flýta okkur en ekki þeir.“

Ísland spilaði afar góða vörn gegn Portúgal á laugardaginn. Varnarleikur íslenska liðsins var hins vegar slakur í kvöld.

„[Roberto] Kovac var mjög heitur í byrjun leiks og við það losnaði um aðra. [Clint] Capela átti svo sinn besta leik í undankeppninni. Þeir fengu framlag frá mörgum leikmönnum í leiknum. Við bjuggum ekki til nógu góð skot í sókninni,“ sagði Pedersen.

En hvað með framhaldið hjá honum og íslenska liðinu?

„Ég hef ekki hugsað um það. En ég er viss um að við munum ræða það á næstu vikum og sjá hvaða leið við förum,“ sagði Pedersen að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.