Umfjöllun og viðtöl: ÍBV 1-1 KA │Tíu leikja taphrina Eyjamanna á enda

Einar Kárason skrifar
Hallgrímur Mar klúðraði vítaspyrnu á ögurstundu
Hallgrímur Mar klúðraði vítaspyrnu á ögurstundu vísir/bára
ÍBV tók á móti KA á Hásteinsvelli í dag, í baráttunni á botninum. Eyjamenn eru svo gott sem fallnir úr deild þeirra bestu en KA menn eru enn í störukeppni við falldrauginn. Fyrir leikinn höfðu heimamenn tapað 10 leikjum í röð en gestirnir mættu á Hásteinsvöll eftir að hafa unnið góðan 4-2 sigur á Stjörnunni í síðustu umferð.



Gestirnir frá Akureyri hófu leikinn af miklum krafti og fór leikurinn í byrjun mestmegnis fram á vallarhelmingi ÍBV. Þrátt fyrir yfirburði náðu gestirnir þó ekki að skapa sér mörg hætuleg tækifæri. Það var þá einna helst Hallgrímur Mar Steingrímsson sem átti gott skot eftir flotta sókn en Halldór Páll Geirsson í marki ÍBV varði vel. Jonathan Glenn átti tilraun ÍBV eftir hornspyrnu frá Jonathan Franks en skot hans auðvelt fyrir Kristjan Jajalo í marki KA.



Eftir um 20 mínútna leik brutu Akureyringar ísinn. Elfar Árni Aðalsteinsson fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna, snéri af sér varnarmann og fann Hallgrím Mar úti á vinstri kanti. Hallgrímur fór illa með andstæðing sinn og sendi frábæran bolta fyrir markið beint á kollinn á Elfari Árna sem skallaði boltann í netið af stuttu færi.



Áfram héldu yfirburðir KA, sem hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum en Halldór Páll í markinu reyndist þeim erfiður.



Strax í upphafi síðari hálfleiks dró til tíðinda þegar Callum Williams braut á Jonathan Glenn inni í vítateig og vítaspyrna dæmd. Gary Martin fór á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan því 1-1.



Strax eftir markið tóku KA menn aftur við sér og eftir um klukkustundar leik fékk Almarr Ormarsson algjört dauðafæri eftir frábæra spilamennsku en skot hans úr teig framhjá markinu.



Eftir færi Almarrs voru marktækifærin af skornum skammti þar sem Eyjamenn vörðust aftarlega á vellinum og virtust sáttir með fenginn hlut. Akureyringar reyndu eins og þeir gátu að brjóta niður varnarmúrinn en án árangurs. KA menn fengu nokkrar aukaspyrnur í kjörstöðu en fóru þær allar forgörðum.



Þegar leikurinn virtist vera að renna út í sandinn og komið var á síðustu mínútu uppbótartímans gerðist Telmo Castanheira brotlegur í eigin vítateig þegar hann braut á Ásgeiri Sigurgeirssyni sem hafði komið inn á sem varamaður í lið KA. Vítaspyrna umsvifalaust dæmd og Hallgrímur Mar steig á punktinn. Spyrna Hallgríms var þó ekki nægilega góð og veðjaði Halldór Páll á rétt horn og varði boltann áður en Eyjamenn náðu svo að hreinsa.



Strax eftir spyrnuna flautaði dómari leiksins til leiksloka og enduðu leikar því 1-1. Virkilega svekkjandi fyrir KA menn sem eru að berjast fyrir lífi sínu í Pepsi Max deildinni.



Af hverju fór sem fór?

KA menn einfaldlega nýttu ekki þau færi sem gáfust. Mættu sofandi inn í síðari hálfleikinn og var refsað.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Í liði heimamanna stóð Halldór Páll Geirsson fremstur manna. Varði nokkrum sinnum virkilega vel og varði svo vítaspyrnu á lokasekúndum leiksins.

Hjá gestunum var Callum Williams öflugur, þrátt fyrir að hafa fengið dæmda á sig vítaspyrnu. Callum hélt Gary Martin niðri allan leikinn og var ein aðal ástæða þess að ÍBV fengu varla færi.

 

Hvað gekk illa?

Hjá ÍBV gekk illa að láta boltann ganga manna á milli. Við minnstu pressu var boltanum spyrnt fram og honum tapað. Einnig gekk liðinu afar illa að skapa sér marktækifæri.

Hjá KA var færanýting einna helst ábótavön. Hefðu getað skorað fleiri mörk í dag og áttu svo í erfiðleikum með að brjóta niður vörn ÍBV eftir að þeir höfðu náð að jafna leikinn.

 

Hvað gerist næst?

ÍBV eiga leik á móti ÍA á Akranesi. Skagamenn hófu mótið af miklum krafti en sitja nú mun nær botninum heldur en toppnum. Eyjamenn eru nánast einungis að spila upp á stoltið og spurning hvort þeir haldi uppteknum hætti og haldi áfram að trufla liðin nálægt fallinu.

KA fær topplið KR í heimsókn. Ætli þeir sér að fá eitthvað úr þeim leik verða þeir að sýna fram á betri færanýtingu en hér í dag.

Óli Stefán: Aðalmarkmiðið að tryggja okkar sess í þessari deild,,Þetta er hundfúlt,” sagði Óli Stefán Flóventsson eftir jafnteflið gegn Eyjamönnum. ,,Við erum sjálfum okkur verstir. Við fáum svo flott færi og flottar stöður til að ganga frá þessum leik en á meðan þetta er í járnum getur allt gerst. Við verðum að klára okkar. Við erum klaufar í byrjun seinni hálfleiks þegar við fáum á okkur markið. Þá er fókusinn ekki rétti stilltur og okkur refsað. Þetta er fúlt en við verðum að gjöra svo vel og virða þetta stig.”



,,Það sem ég horfi fyrst og fremst í er að það eru stór batamerki í okkar leik. Við erum búnir að spila leiki þar sem við erum að spila vel og bæta okkar leik. Það er það sem við erum að fókusa á. Að frammistaðan sé góð og við séum félaginu til sóma. Því leytinu til er ég ánægður með liðið í dag en við þurfum að klára þessa stöðu sem við erum komnir í til að fá þrjú stig. Í dag gerðum við það bara ekki og því verðskulduðum við bara eitt.”

,,Þetta var sjálfsagt rétt víti,” sagði Óli um vítaspyrnudóminn. ,,Ég svo sem sá þetta ekki alveg nógu vel. Ég er fyrst og fremst bara ósáttur með okkar innkomu inn í seinni hálfleikinn. Við lögðum áherslu á að við værum tilbúnir. Við stóðum það ekki. Það vantaði fókus á okkar leik og okkur er refsað ef við erum ekki klárir.”



KA menn fengu gullið tækifæri til að taka öll stigin í dag þegar þeir fengu vítaspyrnu seint í uppbótartíma síðari hálfleiks. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á punktinn en Halldór Páll varði spyrnu hans. ,,Þetta mun ekki hafa nein áhrif á hann. Við verðum að athuga það að Hallgrímur Mar er búinn að vera frábær í sumar og unnið fullt af punktum fyrir okkur. Við virkum bara þannig að við stöndum saman og núna er það okkar hlutverk að klappa honum á bakið og hjálpa honum áfram. Hann verður örugglega svekktur á heimleiðinni en svo er hann bara klár á næstu æfingu og tilbúinn að gera sitt.”



,,Það er mjög auðvelt að fara þá leið (að svekkja sig) en við kjósum að taka það sem við erum að gera vel og fjölga þeim köflum. Í þessum leik í dag er ekki erfitt að laga þá hluti sem fóru úrskeiðis.”



Er KA ekki alltof gott lið til að fara niður? ,,Ég segi það alltaf að við erum að keppa við 11 bestu lið Íslands og við berum virðingu fyrir öllum andstæðingum sem við förum í. Ef við ætlum einhverntímann að halda það að við séum of góðir til að halda að við getum ekki verið í einhvernskonar fallbaráttu þá fyrst erum við í vandræðum. Aðalmarkmið okkar er að tryggja okkar sess í þessari deild” sagði Óli Stefán.

Jeffs: Fyrstu viðbrögð voru bara shit
Ian Jeffs, þjálfari ÍBV.vísir/daníel
,,Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik,” sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, eftir leik. ,,Samt áttum við tækifæri til að búa til eitthvað en vorum ekki með nægilega góðar fyrirgjafir og annað. Það var eitthvað að hjá okkur í fyrri hálfleiknum.”



,,Það var gott hjá okkur inni í hálfleik. Inni í klefa voru menn mjög reiðir og tóku þetta svolítið út milli leikmanna sem mér fannst mjög gott. Ég er búinn að bíða eftir þessu. Að leikmenn sýni smá passion. Það var smá flugeldasýning inni í klefa sem var gott. Við komum svo inni í seinni hálfleikinn með krafti og náum marki. Eftir 60 mínútur fannst mér þeir svo taka yfir leikinn aftur. En við erum ánægðir með að sigla einu stigi í pottinn.”



,,Mér fannst vanta allt það sem við vorum búnir að leggja upp með. Það var ekki til staðar í fyrri hálfleik. Menn voru ósáttir hvernig leikurinn var að spilast. Ég ætla að hrósa þeim fyrir það að sýna smá passion og vilja. Þeir vildu rífa þetta í gang í seinni hálfleik. Þetta er erfitt þegar þú ert búinn að tapa 10 leikjum í röð. Það er erfitt að lenda undir og þú hugsar að þetta sé bara annar leikur sem þú ert að fara að tapa. Það er erfitt að koma sér í gang. Þeir gera það í dag og eiga hrós skilið, sagði Ian.



ÍBV fékk dæmda á sig vítaspyrnu í uppbótartíma. Hvað fór í gegnum hausinn á þjálfaranum þegar bent var á punktinn? ,,Here we go again. Veit ekki hvort þetta var víti eða ekki. Ég er langt frá og sé þetta ekki. Þú hugsar náttúrulega bara að þú sért búinn að spila 92 mínútur eða eitthvað og færð á þig víti. Fyrstu viðbrögð voru bara ,,shit.” Að þú sért að fara að tapa leiknum 2-1 og vonbrigði. En Dóri (Halldór Páll Geirsson) gerði vel og las hann vel og ver vítið. Frábært hjá honum. Gott fyrir hans sjálfstraust líka. Hann átti mjög góðan leik í dag fannst mér.”



,,Það er það eina sem ég bað leikmenn um er að ekki gefast upp. Við erum ekki þekktir fyrir það í Vestmannaeyjum. Sýna þetta passion og að þið viljið gefa allt í þá leiki sem eru eftir. Það gæti skilað okkur einhverjum stigum og við byggjum ofan á það. Flott að fá eitt stig í dag og fara bara í næsta leik með smá meira sjálfstraust og sjá hvað kemur út úr því,” sagði Ian að lokum.

Hallgrímur Mar: Mig langaði að hverfaHallgrímur Mar Steingrímsson, leikmaður KA, var að vonum svekktur með leik dagsins gegn ÍBV. ,,Já, verulega. Sérstaklega með að við klúðrum víti í uppbótartíma, eða ég klúðra víti. Þetta er bara ólýsanlegt svekkelsi.”



,,Mér fannst við miklu betra liðið á vellinum. Það er bara einhver langur bolti innfyrir í byrjun seinni sem þeir eru duglegir að elta og það kemur fyrirgjöf inn í box og dæmt víti. Það var í raun það eina sem þeir gerðu.”



,,Við ætluðum okkur að mæta þeim eftir hálfleikinn. Við ætluðum okkur ekki að mæta sofandi, eða ekki sofandi. Við mætum með fókusleysi í gangi og fáum á okkur víti. Við ætluðum að halda áfram sömu braut og í fyrri hálfleik en því miður fá þeir mark strax í byrjun seinni og þá detta þeir niður. Þá er erfiðara fyrir okkur að skapa. Þrátt fyrir það eigum við að klára þennan leik.”



Eins og Hallgrímur sagði þá lét hann verja frá sér vítaspyrnu í uppbótartíma síðari hálfleiks og hefði getað verið hetjan en raunin varð önnur.. Hvernig var sú tilfinning? ,,Ég veit það ekki. Þetta var bara ógeðslegt. Mig langaði bara að hverfa. Ég tek þetta á mig. Ég klúðra þessu víti. Sérstaklega þar sem ég vildi taka það, þá á ég að klára það.”



Það er stutt á milli þess að vera hetjan og svo andstæðan. ,,Já, ég er eiginlega andstæðan í dag, því miður,” sagði Hallgrímur brosandi gegnum svekkelsið. ,,En við höldum áfram. Þetta er eitt stig sem getur skipt máli í lokin,” sagði hann svo að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira