Körfubolti

Íslenska körfuboltalandsliðið mætir með tvo sjö feta menn til Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Ágúst Nathanaelsson er kominn aftur inn í íslenska landsliðið.
Ragnar Ágúst Nathanaelsson er kominn aftur inn í íslenska landsliðið. vísir/bára
Craig Pedersen hefur ákveðið ásamt aðstoðarþjálfurum sínum, Finni Freyr Stefánssyni og Baldri Þór Ragnarssyni, að gera eina breytingu á leikmannahópi sínum fyrir lokaleikinn  í forkeppninni að undankeppni EM 2021.

Íslenska liðið vann stórsigur á Portúgal um helgina en hafði áður unnið Sviss í Laugardalshöllinni og tapaði naumlega fyrir Portúgölum út í Portúgal.

Íslenski landsliðshópurinn hélt út til Sviss í morgun þar sem liðið mætir Sviss á miðvikudaginn en leikurinn fer fram í bænum Montreux.

Íslenska liðið er í mjög góðri stöðu fyrir leikinn en sigur gulltryggir efsta sæti riðilsins og sæti í undankeppni EM sem hefst í febrúar 2020. Aðeins efsta liðið í riðlinum í forkeppninni fer áfram í sjálfa undankeppnina.

Íslenska liðið hefur verið með sama hóp í fyrstu þremur leikjunum en mætir með tvo sjö feta menn til Sviss til að eiga við NBA-leikmanninn Clint Capela sem spilar með Houston Rockets.

Hin 218 sentímetra hái Ragnar Ágúst Nathanaelsson kemur inn í íslenska liðið fyrir þennan leik í stað Hjálmars Stefánssonar. Fyrir hjá íslenska liðinu er hinn 216 sentímetra hái Tryggvi Snær Hlinason.

Lið Íslands gegn Sviss verður þannig skipað:

Frank Aron Booker · ALM Évreux, Frakkland (3 landsleikir)

Gunnar Ólafsson · Keflavík (17)

Elvar Már Friðriksson · Njarðvík (45)

Hlynur Bæringsson · Stjarnan (128)

Hördur Axel Vilhjálmsson · Keflavík (81)

Jón Axel Guðmundsson · Davidson, USA (10)

Martin Hermannsson · Alba Berlin, Þýskaland (68)

Ólafur Ólafsson · Grindavík (35)

Pavel Ermolinskij · KR (72)

Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Valur (44)

Tryggvi Snær Hlinason · Zaragoza, Spánn (36)

Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan (60)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×