Íslenski boltinn

Logi: Langar ekki öllum að skora á móti Val?

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Víkingar fagna marki Loga í kvöld.
Víkingar fagna marki Loga í kvöld. vísir/daníel
Logi Tómasson skoraði í kvöld jöfnunarmark fyrir Víking 2-2 jafntefli á heimavelli gegn Val. Valsmenn komust yfir 2-0 en Víkingar gerðu mjög vel í að koma tilbaka og markið frá Loga fullkomnaði endurkomuna.

Logi skoraði líka á móti Val í opnunarleik Pepsi Max deildarinnar í apríl. Hann lagði líka upp mark í þeim leik og var maður leiksins. Þetta eru einu mörk Loga í meistaraflokki og því voru eflaust margir að spá hvað málið er með Loga og Val.

„Mér finnst gaman að skora á móti Íslandsmeisturum þeir eru góðir. Langar ekki öllum að skora mörk á móti Val?“

Valsmenn komust snemma yfir en gerðu síðan lítið fram á við í seinni hálfleik. Víkingarnir voru hinsvegar ekki að skapa sér mikið af dauðafærum en voru mikið meira með boltann.

„Mér fannst við vera betri aðilinn í seinni hálfleik og hefðum alveg átt skilið meira en stig mögulega.“  

„Það vantaði aðallega uppá á síðasta þriðjungnum. Við vorum að koma okkur í góðar stöður á vellinum en það vantaði bara að klára þær aðeins betur. “  

Eftir leikinn eru Víkingar í 10. sæti jafnir á stigum með Grindavík og KA. Þeir eru þó ekkert hræddir við að falla úr deild þeirra bestu.

„Mér finnst við vera með mjög gott lið og vera að spila vel. Þetta er bara sama og venjulega að við náum ekki að klára þrjú stig. Við erum að gera alltof mörg jafntefli ég vona bara að þetta fari að koma bráðlega. “  

Fjórir af næstum fimm leikjum Víkinga eru á móti Stjörnunni, Breiðablik og KR sem eru þrjú af fjórum efstu liðum deildarinnar. Víkingar eiga Blika bæði í deildinni og í undanúrslitaleik bikarsins.

„Skemmtilegustu leikirnir eru á bestu liðunum. Þetta eru leikirnir til að sýna hvað maður getur í fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×