Innlent

Hafa aldrei fundið fleiri blautklúta í íslenskri fjöru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Blautklútar flokkaðir. Þeim á alls ekki að sturta niður í klósettið.
Blautklútar flokkaðir. Þeim á alls ekki að sturta niður í klósettið. Mynd/umhverfisstofnun

Alls voru tíndir 977 blautklútar í nýafstaðinni ferð starfsmanna Umhverfisstofnunar í fjörunni í Bakkavík á Seltjarnarnesi. Aldrei hafa verið tíndir fleiri blautklútar í einni ferð, að sögn stofnunarinnar, sem ítrekar að „klósettið sé ekki ruslafata“.

Ferðin er liður í vöktunarverkefni Umhverfisstofnunar en í slíkum ferðum er allt rusl tínt á 100 metra kafla. Farið er í ferðirnar fjórum sinnum á ári, ruslið flokkað eftir staðlaðri aðferðarfræði og gögnin notuð til að fylgjast með þróun á magni og samsetningu rusls á ströndum.

Magn blautklúta var sérstaklega áberandi að lokinni ruslatínslu en ætla má að blautklútarnir hafi ratað í fjöruna úr sjónum. Þar lenda þeir þegar þeim er sturtað niður klósett, sem á alls ekki að gera.

„Það varð fljótt áberandi hversu mikið var af blautklútum, sem var staðfest eftir talningu á ruslinu. Alls voru tíndir 977 blautklútar, en það hafa aldrei fundist eins margir blautklútar í einni ferð. Til samanburðar voru alls tíndir 753 blautklútar árið 2017 og 605 árið 2018,“ segir í tilkynningu.

„Að gefnu tilefni viljum við ítreka að klósettið er EKKI ruslafata.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.