Lífið

Kúrekalagið sívinsæla slær met Billboard-listans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þeir félagar, Billy Ray og Lil Nas X, á góðri stundu.
Þeir félagar, Billy Ray og Lil Nas X, á góðri stundu. Vísir/Getty
Kúrekalagið vinsæla, Old Town Road með rapparanum Lil Nas X og kántrísöngvaranum Billy Ray Cyrus, hefur slegið met með veru sinni á toppi lista Billboard yfir vinsælustu smáskífurnar (e. single), en lagið hefur nú varið 17 vikum á toppi listans, lengur en nokkur önnur smáskífa.

Old Town Road var fyrst gefið út í desember 2018. Til marks um vinsældir þess, sem virðast hreinlega vera óendanlegar, hefur laginu verið streymt hátt í 73 milljón sinnum og hlaðið niður 46 þúsund sinnum á síðustu sjö dögum.

Lil Nas X hefur gefið lagið út í nokkrum endurútsetningum (e. remix) en allar teljast útgáfurnar nógu líkar þeirri upprunalegu til þess að spilanir þeirra teljist inn á upprunalegu smáskífuna.

Lagið er nú búið að slá fyrra metið, sem var 16 vikur. Tvö lög hafa náð þeim árangri að verja svo löngum tíma á toppi Billboard-listans í flokki smáskífa. En það eru lögin Despacito með Luis Fonsi, Daddy Yankee og Justin Bieber (2017), og One Sweet Day með Mariah Carey og Boyz II Men (1995).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×