Innlent

2300 stelpur í 344 liðum frá 41 fé­lagi á Síma­mótinu um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
KR og Breiðablik eigast hér við í leik í morgun.
KR og Breiðablik eigast hér við í leik í morgun. vísir/vilhelm

2300 stelpur hvaðanæva að á landinu taka þátt í Símamótinu sem fer fram á félagssvæði Breiðabliks í Fífunni í Kópavogi um helgina. 41 félag sendir lið á mótið en alls eru liðin 344 talsins.

Jóhann Þór Jóhannsson, formaður barna- og unglingaráðs hjá Breiðabliki, segir Símamótið langstærsta fótboltamót sem haldið er hér á landi og það hafi farið stækkandi. Þannig séu fleiri þátttakendur í ár heldur en í fyrra.

Keppni hófst klukkan hálfníu í morgun og í kvöld er svo setningarathöfnin. Hún er vanalega á fimmtudagskvöldið en vegna Evrópuleiks hjá meistaraflokki karla í Breiðabliki verður mótið sett formlega í kvöld. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setur mótið og Friðrik Dór heldur svo uppi fjöri.

Mótið er stærsta fótboltamót sem haldið er hér á landi. vísir/vilhelm

Stelpurnar sem keppa eru frá 7. flokki og upp í 5. flokk og er mótið riðlakeppni með styrkleikaröðun. Breiðablik sendir flest lið á mótið, alls 34.

Jóhann segir að svona mót gæti aldrei gengið ef ekki væri fyrir dyggan stuðning sjálfboðaliða.

„Foreldrar í Breiðabliki fá niðurgreiðslu á æfingagjöldum fyrir að taka vakt á mótinu. Við tókum þetta saman hvað þetta er mikil vinna og þetta eru 150 dagsverk sem verið er að manna yfir helgina,“ segir Jóhann.

Keppni lýkur um þrjúleytið á sunnudag. Síminn sýnir beint frá mótinu og þá má nálgast allar upplýsingar um úrslit og leiki á vefsíðu mótsins.

Knattspyrnustúlka í Val fagnar góðu gengi. vísir/vilhelm
Mótið stendur alla helgina. vísir/vilhelm


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.