Lífið samstarf

Alþjóðleg heimildamyndahátíð haldin í fyrsta sinn

Iceland Documentary Film Festival kynnir
Úr heimildamyndinni Honeyland sem fjallar um N-Makedónska hunangsbóndann Hatidze sem vinnur eftir gamla laginu.
Úr heimildamyndinni Honeyland sem fjallar um N-Makedónska hunangsbóndann Hatidze sem vinnur eftir gamla laginu.
Alþjóðlega heimildarmyndahátíðin Iceland Documentary Film Festival hefst í dag. Hátíðin fer fram á Akranesi og stendur fram á sunnudagskvöld. Þetta er fyrsta alþjóðlega heimildamyndahátíðin sem haldin er hér á landi og er dagskráin hin glæsilegasta.  Ingibjörg Halldórsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir sérstaka heimildamyndahátíð löngu hafa verið tímabæra.

„Fólk heldur gjarnan að heimildamyndir séu þurrar og einhæfar en þær eru eins ólíkar og þær eru margar. Okkur langar til að sýna fram á það og gefa heimildamyndum það sviðsljós sem þær eiga skilið,“ segir Ingibjörg.

Dagskráin er ríkuleg, meðal annars viðamikil barnadagskrá og einnig verða fjölmargir sérviðburðir  í gangi yfir hátíðina, bjórsmökkun, lifandi tónlist, ratleikur og „þynnkubíó“!

„Þynnkubíóið höldum við á sunnudaginn og sýnum mynd um ekkert, myndina In Praise of Nothing, þar sem tómið eða „ekkert“ segir frá tilveru sinni,“ segir Ingibjörg. „Á dagskránni er einnig miðnætursýning á föstudagskvöldið, myndin Almost Fashionable, en það er heimildamynd um hljómsveitina Travis og þá skemmtilegu staðreind að hún hefur aldrei verið kúl.

Á hátíðinni eru þrír keppnisflokkar en sjö myndir eru í aðalkeppnisflokki. Dómnefndina skipa  Anna Þóra Steinþórsdóttir kvikmyndagerðakona,  Diane Henderson „deputy programmer“  hjá Edinburgh International Film Festival og Jessica Kiang gagnrýnandi en hún skrifar meðal annars í Variety og Rotten Tomatoes.“ 

Í aðakeppninni eru eftirfarandi myndir: 

Hin pólsk-íslenska In Touch, Sem vann til verðlauna á IDFA einni stærstu heimildamyndahátíð í Evrópu og dómnefndarverðlaun á Skjaldborg. Haukur framleiðandi myndarinnar verður á sýningunni. 

 

N-Makedónska heimildamyndin Honeyland vann þrenn verðlaun á Sundance. Myndin fjallar um hunangsbóndann Hatidze sem vinnur eftir gamla laginu. Hatidze fer sjálf með hunangið á markað og þykir vænt um búin sín. Þegar hún fær nágranna sem taka einnig upp hunangsrækt verður hún í fyrstu glöð að fá félagsskap en það breytist fljótt þegar áherslumunur í ræktuninni verður ljós. 

Hollenska heimildamyndin Bruce Lee and the Outlaw.  Joost, leikstjóri myndarinnar fylgdi ungum götudreng eftir í sex ár. Drengurinn býr í undirgöngum Búkarest í Rúmeníu ásamt "Bruce Lee" , geggjuðum náunga sem heldur "verndarhendi" yfir hópi götudrengja sem í staðinn selja eiturlyf fyrir hann.

Myndin er átakaleg en um leið mjög falleg og mannleg og leikstjórinn nær að þræða meðalveg þess að fylgjast með og verða óvænt þátttakandi í eigin mynd. 

Rússneska heimildamyndin How Big is the Galaxy.  Falleg frásögn af hirðingjasamfélagi þar sem börnin fá heimakennslu. Aðalsöguhetjan er  7 ára drengur sem kemur kennaranum og foreldrum oft í vandræði með stórum spurningum. 

Sænska myndin Hamada, þar sem fylgst er með ungu fólki úr Sahrawi ættbálknum sem hefur verið án lands í 40 ár og er nánast gleymdur. Þau lifa sínu venjubundna lífi í smáu samfélagi, kannski ekkert ólíku smábæjarlífi á Íslandi, og dreymir um að ferðast til fjarlægra landa eignast maka og fá vinnu við áhugamálið sem er bílar.  

Litháíska heimildamyndin Animus Animalis er ljóðræn nálgun á samband manns og dýra og þá þörf mannsins að halda í það sem er farið. 

Serbneska myndin 4 Years in 10 Minutes þar sem dagbókarbrotum manns sem kleif Everest er skeytt  saman við myndböndin sem hann tók í sömu ferð. Hugleiðing um hvernig raunveruleikinn er ekki alltaf eins og maður óskar sér. 

 

Leikstjórar allra myndanna, fyrir utan leikstjóra Honeyland, mæta á hátíðina.

Nánari upplýsingar og miðakaup hér

Þessi kynning er unnin í samstarfi við Iceland Documentary Film Festival.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×