Erlent

Nýir toppar ESB ósammála um Brexit

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ursula von der Leyen hefur verið tilnefnd til að taka við af Jean-Claude Juncker sem forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Ursula von der Leyen hefur verið tilnefnd til að taka við af Jean-Claude Juncker sem forseti framkvæmdastjórnar ESB. vísir/getty
Á meðal nýrra æðstu embættismanna Evrópusambandsins er ágreiningur um hvernig eigi að nálgast úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Ursula von der Leyen, sem hefur verið tilnefnd til að taka við af Jean-Claude Juncker sem forseti framkvæmdastjórnar ESB og Charles Michel, sem hefur verið tilnefndur sem eftirmaður Donald Tusk í embætti forseta leiðtogaráðsins, eru ekki sammála um Brexit.

Michel, sem er fráfarandi forsætisráðherra Belgíu, er hlynntur því að Bretar gangi úr ESB án samnings frekar en að gerður verði úrsagnarsamningur sem gangi gegn hagsmunum Evrópusambandsins. Von der Leyen vill hins vegar málamiðlun sem báðir samningsaðilar geta sætt sig við og varaði sérstaklega við því í apríl síðastliðnum að úrsögn Bretlands úr ESB án samnings gæti haft algjörlega ófyrirseðar afleiðingar.

Ljóst þykir að Michel og von der Leyen þurfa að vera samstíga um stefnuna því þau verða við stjórnvölinn hjá Evrópusambandinu gagnvart úrsagnarviðræðum Bretlands frá nóvember næstkomandi. Þau tvö gætu í reynd haft meiri áhrif á Bretland en nokkrir aðrir leiðtogar í sögu evrópskrar samvinnu að því er fram kemur í Financial Times í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×