Lífið

Páll Óskar tók til eftir sjálfan sig eftir fimm tíma ball

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ellefu hundrað manns skemmtu sér konunglega á fimm tíma balli Páls Óskars í Boganum á Akureyri á laugardagskvöld. Þórsarar stóðu fyrir ballinu sem markaði lokapunktinn á árlegu Pollamóti þeirra í Þorpinu þar sem karlmenn eldri en 28 ára og konur yfir tvítugu kepptu í fótbolta bæði föstudag og laugardag.

Þeir sem hafa skellt sér á Pallaball í gegnum tíðina þekkja fasta liði. Allar hendur upp í loft og konfettísprengjur.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila innanhúss á gervigrasvelli,“ segir Páll Óskar í samtali við Vísi. Hann segir að einstaklega vel hafi verið að öllu staðið, plötur lagðar á grasið til að verja það og gera fólki kleyft að dansa undir dynjandi tónlistinni.

Skipuleggjendur höfðu orð á því við Pál Óskar að þeir hefðu áhyggjur af þrifum eftir konfettísprengjurnar.

„Ég sagði þeim að rétta mér sóp og ég þreif salinn sjálfur,“ segir Páll Óskar.

„Sólrún Diego er komin með samkeppni!“

Páll Óskar segist hafa heyrt endurtekið af því að vertar og ballhaldarar kvarti undan veseni sem fylgi því að þrífa upp konfettíið.

„Það er það ekki baun,“ segir Páll Óskar. Ballinu hafi verið lokið klukkan fjögur og klukkustund síðar hafi ekki séð á salnum.

Aðspurður hvort kropparnir á dansgólfinu hafi ekki verið frekar stífir og stirrðir eftir boltaspark segir Páll Óskar það öðru nær.

„Þetta var eins 'smooth' og 'bjútífúl' og hægt var,“ segir Páll Óskar. Hann hafi fundið það á fólki hve brjálað líf var í bænum. Engin furða enda fjölmennasta N1 mótið frá upphafi á KA-svæðinu sem lauk sömuleiðis á laugardaginn.

„Þetta er með því stærra sem ég hef komist í!“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.