Sport

Magnús Ver sigraði Kazmaier í Herkúlesarhaldi eftir þrjátíu ára hlé

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Magnús Ver Magnússon.
Magnús Ver Magnússon. Vísir/Vilhelm
Kraftajötnarnir Magnús Ver Magnússon og hinn bandaríski Bill Kazmaier mættust í fyrsta skipti í þrjátíu ár á laugardaginn. Áttust þeir við í sérstökum viðburði á Giants Live mótinu í Lundúnum og héldu tveimur grískum stólpum. Er það kallað Herkúlesarhaldið og vegur hvor stólpi 160 kílógrömm.



Magnús og Kazmaier eru tveir af sigursælustu kraftajötnum sögunnar. Magnús var í fjórgang sterkasti maður heims og Kazmaier þrisvar. Árið 1989 lenti þeim saman í keppni eftir að Kazmaier hrinti Magnúsi svo að hann missti tunnu ofan af brú. Tunnan lenti hins vegar á O.D. Wilson, samherja Kazmaiers í keppninni. Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Skemmst er frá því að segja að Magnús hafði betur. Hélt hann stólpunum í hundrað sekúndur á meðan Kaz­maier hélt í átján. Það þó að Magnús hafi nýlega gengist undir stofnfrumumeðferð á hnjám.

„Ég vissi ekkert hvað eða hvort ég gæti eitthvað í þessu lengur eða hvort þetta yrði mjög sárt,“ segir Magnús Ver við Fréttablaðið. „En eftir að ég byrjaði og fann jafnvægið þá datt gamla keppnisskapið í gang. Þetta var eins og að fara aftur í tímann. Andrúmsloftið var rafmagnað, ég hreifst með og þetta var ekkert mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×