Innlent

Hélt vöku fyrir ná­grönnum og reyndi að ráðast á lög­reglu

Sylvía Hall skrifar
Mikið var um útköll vegna fólks í annarlegu ástandi í nótt.
Mikið var um útköll vegna fólks í annarlegu ástandi í nótt. Vísir/Vilhelm
Frá klukkan 19 til 05:30 í nótt komu 76 mál á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert var um ölvunarakstur og mikið um útköll vegna hávaða í heimahúsum.

Ökumenn voru stöðvaðir undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á tímabilinu víðs vegar um borgina. Þar af var einn stöðvaður undir áhrifum fíkniefna en sá hafði aldrei öðlast ökuréttindi og var hann látinn laus að lokinni sýnatöku.

Í Kópavogi var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa eftir að hafa haldið vöku fyrir nágrönnum sínum. Maðurinn var í annarlegu ástandi, var með öllu óviðræðuhæfur og reyndi að ráðast á lögreglu þegar hún mætti á vettvang.

Ökumaður vespu í Hafnarfirði var stöðvaður af lögreglu en viðkomandi hafði ekið vespunni með farþega á. Reyndist ökumaður vera ölvaður, án ökuréttinda og hjólið jafnframt ótryggt.

Einn var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl en lögregla þurfti að hafa afskipti af viðkomandi sem hafði legið utandyra sökum ölvunar og var orðinn mjög kaldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×