Handbolti

HSÍ kallar eftir svörum: "Strandar á almennum viðbrögðum frá ríkisstjórninni“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segir að Reykjavíkurborg sé jákvæð um að byggja nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir en málið strandi sem stendur á ríkisvaldinu.

Umræða um nýjan þjóðarleikvang hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur og mánuði en margar greinar hafa verið ritaðar um málið og þrýstingur sett á stjórnvöld.

Málið komst í hámæli í síðustu viku er Selfoss fékk ekki þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu vegna þess að ekkert hús á Íslandi uppfylli skilyrði Handknattleikssambands Evrópu.

„Það er leitt að við getum ekki uppfyllt kröfur sem það er verið að gera til þess að leika í Evrópumótum,“ sagði Guðmundur er hann ræddi málefni handboltans í Reykjavík síðdegis í gær.

„Þetta er ekki að koma fyrst upp núna. Við höfum verið að spila okkar landsleiki á undanþágu, með því að spila í Laugardalshöll. Þetta eru mismunandi kröfur eftir keppnum og Meistaradeildin í Evrópu er ein af stærstu keppnunum.“

„Þar eru gerðar lágmarkskröfur um 2.500 manna hús. Þeir voru ekki tilbúnir að veita undanþágu frá þeim kröfum sem þeir gera í því.“

„Selfoss ætlaði að fá að spila á Ásvöllum sem tekur um .2300 manns, svipað og Laugardalshöll. Síðan eru aðrar keppnir sem húsin uppfylla skilyrði svo næsta keppni fyrir neðan Meistaradeildina er EHF-keppnin. Þeir geta getað spilað í henni á Ásvöllum.“

Úr landsleik í Laugardalshöll.vísir/vilhelm
Aðspurður hvernig menn bregðast við svona svörum frá alþjóðasamböndum í handboltanum segir Guðmundur að málið hafi verið lengi í umræðunni því Laugardalshöll væri vissulega komin til ára sinna.

„Við höfum í mörg ár óskað eftir viðræðum við ríki og borg, eða sveitarfélög í nágrenninu, um uppbyggingu á þjóðarleikvangi fyrir innanhúsíþróttir.“

„Við erum ekki bara að tala um okkur í því. Þar eru einnig karfan og fleiri íþróttagreinar sem myndu njóta góðs af því. Ég hugsa þetta þannig að við gætum tekið þátt í alþjóðakeppnum í fimleikum og frjálsum og öðru slíku,“ en hvar væri best að sú nýbygging myndi rísa?

„Ég held að það sé æskilegast að hún rísi í Laugardalnum og samnýta vöntun á íþróttahúsi þar fyrir félag og skóla í hverfinu. Maður þarf að hugsa upp á nýtingu á öðrum tímum en keppnirnar eru. Það væri nærtækast,“ en vill Guðmundur nýbyggingu eða væri hægt að breyta Laugardalshöll?

„Ég sé fyrir mér nýbyggingu en útiloka það ekki að það gæti orðið byggt við Laugardalshöllina, að við gætum tengt það eitthvað saman. Í nútíma kröfum er verið að gera kröfur um stóra búningsklefa og annað slíkt. Ég sé það alveg fyrir mér en það þyrfti að útfæra og hugsa.“

Kostnaðurinn fyrir verkefninu liggur ekki fyrir þar sem það fer eftir því hvort að höllin verði nýbygging eða ekki. Guðmundur þekkir þar af leiðandi ekki til kostnaðarliðsins.

„Ég er ekki með það á hreinu en þetta eru einhverjir milljarðar. Ástæðan fyrir því að Laugardalshöllin uppfyllir þetta ekki er að hún er orðin gömul og nú eru komnar nýjar kröfur um öryggissvæði, um auglýsingar, aðstæður fyrir fjölmiðla. Laugardalshöllin er orðin of lítil.“

„Við höfum verið að óska eftir viðræðum og reyna að fá einhver svör hjá ríkisvaldinu. Hvort að þeir væru tilbúnir að koma að þessu og að hvaða hætti. Það hefur reynst erfitt að fá svör við því.“

„Reykjavíkurborg hefur aftur á móti svarað okkur með jákvæðum svörum og hefur verið tilbúin í viðræður við ríkisvaldið. Það strandar á almennum viðbrögðum frá ríkisstjórninni hvort að hún sé tilbúin í þetta eða ekki.“

Íslenska landsliðið fagnar góðum sigri.vísir/bára
Eftir glæsilegan árangur landsliðanna í fótboltanum undanfarin ár sneristumræðan, að einhverju leyti, síðustu ár um hvort að nýr þjóðarleikvangur fyrir fótboltann væri það sem ætti að rísa, á undan húsi fyrir innan hús íþróttir.

„Ég skil alveg knattspyrnusambandið að búa í haginn fyrir sína íþrótt og þeir eru að mæta nýjum áskorunum með frábærum árangri þeirra. Það þarf að spila hér um vetur og þeir þurfa að mæta því,“ sagði Guðmundur áður en hann ítrekaði aftur þörfina fyrir innanhúss leikvangi.

„Það er ekki ásættanlegt að við séum ekki með höll eða íþróttaleikvang sem getur hýst alþjóðakeppni. Við erum á undanþágu og vitum ekkert hvað þessar undanþágur gilda lengi.“

„Handboltinn er búinn að vera á stórmótum samfleytt í tólf, þrettán ár. Ég held að við höfum misst út eitt mót. Við erum enn með fremstu þjóðum í handboltanum,“ en Guðmundur segir að HSÍ kalli nú eftir svörun.

„Reykjavíkurborg hefur verið jákvæð og vill skoða þetta að alvöru. Þetta kostar mikið og viljum við að ríkisvaldið segi til um hvort að þeir vilji koma að þessu og með hvaða hætti. Við köllum eftir svörum,“ sagði Guðmundur.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Þjóðarskömmin í Laugardalnum

Það virðist ekki lengur vera spurning hvort heldur hvenær landsliðin okkar í stærstu boltaíþróttunum munu þurfa að spila heimaleiki sína erlendis. Sá dagur er fyrsti heimaleikur Íslands í stórkeppni fer fram á erlendum vettvangi verður svartur dagur í íslenskri íþróttasögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×