Innlent

Eftirtektarsamir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa

Eldur kom upp í íbúðarhúsi að Stýrimannastíg í Vesturbæ Reykjavíkur á níunda tímanum í morgun. Mikill viðbúnaður er á vettvangi og var allt tiltækt slökkvilið kallað út.

Íbúum hússins varð ekki meint af þökk sé eftirtektarsömum nágrönnum sem náðu að vekja íbúana í tæka tíð. Þetta segir Ari Jóhannes Hauksson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu sem ræddi við fréttamann á vettvangi.

„Við fengum tilkynningu um eld í þessu húsi hérna við hliðina á okkur og við sendum reykkafara inn. Það var eldur í einu rými þarna. Það leit út fyrir að eldur væri kominn í þakið en við náðum að slökkva eldinn tiltölulega fljótt í þessu eina rými og nú erum við að reykræsta húsið og að ganga úr skugga um að enginn eldur sé enn til staðar,“ segir Ari Jóhannes.

Húsið, sem stendur á horni Stýrimannastígs og Ránargötu er timburhús að hluta.

„Já, fyrsta hæðin er steypt og svo er timburhús ofan á og það er alltaf hætta þegar timburhús eru annars vegar,“ segir Ari Jóhannes.

„Nú erum við bara komnir í að reykræsta húsið og vonandi er þetta bara að klárast.“

Íbúar í hverfinu fylgjast með störfum slökkviliðsmanna úr görðum og gangstéttinni. Lögreglan hefur þó girt vettvanginn af.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 10:07

Slökkviliðsmenn að störfum. Vísir/Kolbeinn Tumi
Minnst tveir sjúkrabílar eru á vettvangi en talið er að enginn sé innandyra. Vísir/Kolbeinn Tumi
Íbúar í hverfinu fylgjast með störfum slökkviliðsmanna. Vísir/Kolbeinn Tumi
Vísir/Kolbeinn Tumi
Allt tiltækt slökkvilið hefur verið kallað út. Vísir/Kolbeinn Tumi


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.