Körfubolti

Toronto getur orðið meistari í fyrsta sinn í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kawhi Leonard hefur farið á kostum í úrslitakeppninni.
Kawhi Leonard hefur farið á kostum í úrslitakeppninni. vísir/getty

Toronto Raptors getur tryggt sinn fyrsta NBA-meistaratitil þegar liðið tekur á móti Golden State Warriors í nótt.

Þetta er fimmti leikur liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar. Toronto leiðir einvígið 3-1.

Fyrstu tveir leikirnir fóru fram í Scotiabank höllinni í Toronto og skiptu liðin sigrunum á milli sín.

Toronto vann svo báða leikina í Oracle höllinni í Oakland og er nú aðeins einum sigri frá fyrsta meistaratitlinum í sögu félagsins. Toronto var stofnað árið 1995 og hefur verið eina kanadíska liðið í NBA-deildinni síðan 2001.

Stórstjarnan Kevin Durant æfði með Golden State í gær og vonast er til að hann geti leikið í nótt. Hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í fimmta leiknum gegn Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar vegna meiðsla á kálfa.

Klay Thompson missti af þriðja leiknum gegn Toronto vegna meiðsla en var stigahæstur Golden State-manna í fjórða leiknum með 28 stig.

Golden State varð meistari 2015, 2017 og 2018 en tapaði fyrir Cleveland Cavaliers í úrslitunum 2016.

Á þessu blómaskeiði í sögu félagsins hefur Golden State aðeins einu sinni áður lent 3-1 undir í einvígi í úrslitakeppninni. Það var gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildarinnar 2016.

Golden State kom þá til baka, vann síðustu þrjá leikina og tryggði sér sæti í úrslitunum. Þetta voru síðustu leikir Durants fyrir Oklahoma en um sumarið gekk hann í raðir Golden State.

Fimmti leikur Toronto og Golden State hefst klukkan 01:00 í nótt.

NBA

Tengdar fréttir

Durant æfði með meisturunum í gær

Óvíst er með þátttöku Kevin Durant, skærustu stjörnu ríkjandi NBA meistara Golden State Warriors, þegar liðið mætir Toronto Raptors í leik sem gæti verið síðasti leikur liðsins á tímabilinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.