Körfubolti

Toronto getur orðið meistari í fyrsta sinn í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kawhi Leonard hefur farið á kostum í úrslitakeppninni.
Kawhi Leonard hefur farið á kostum í úrslitakeppninni. vísir/getty
Toronto Raptors getur tryggt sinn fyrsta NBA-meistaratitil þegar liðið tekur á móti Golden State Warriors í nótt.

Þetta er fimmti leikur liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar. Toronto leiðir einvígið 3-1.

Fyrstu tveir leikirnir fóru fram í Scotiabank höllinni í Toronto og skiptu liðin sigrunum á milli sín.

Toronto vann svo báða leikina í Oracle höllinni í Oakland og er nú aðeins einum sigri frá fyrsta meistaratitlinum í sögu félagsins. Toronto var stofnað árið 1995 og hefur verið eina kanadíska liðið í NBA-deildinni síðan 2001.

Stórstjarnan Kevin Durant æfði með Golden State í gær og vonast er til að hann geti leikið í nótt. Hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í fimmta leiknum gegn Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar vegna meiðsla á kálfa.

Klay Thompson missti af þriðja leiknum gegn Toronto vegna meiðsla en var stigahæstur Golden State-manna í fjórða leiknum með 28 stig.

Golden State varð meistari 2015, 2017 og 2018 en tapaði fyrir Cleveland Cavaliers í úrslitunum 2016.

Á þessu blómaskeiði í sögu félagsins hefur Golden State aðeins einu sinni áður lent 3-1 undir í einvígi í úrslitakeppninni. Það var gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildarinnar 2016.

Golden State kom þá til baka, vann síðustu þrjá leikina og tryggði sér sæti í úrslitunum. Þetta voru síðustu leikir Durants fyrir Oklahoma en um sumarið gekk hann í raðir Golden State.

Fimmti leikur Toronto og Golden State hefst klukkan 01:00 í nótt.

NBA

Tengdar fréttir

Durant æfði með meisturunum í gær

Óvíst er með þátttöku Kevin Durant, skærustu stjörnu ríkjandi NBA meistara Golden State Warriors, þegar liðið mætir Toronto Raptors í leik sem gæti verið síðasti leikur liðsins á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×