Körfubolti

Elvar setti íslenskt stigamet á Smáþjóðaleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Mynd/KKÍ
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson var frábær með íslenska körfuboltalandsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og setti nýtt stigamet.

Elvar Már skoraði 84 stig í leikjunum fjórum eða 21,0 stig að meðaltali í leik. Hann er aðeins þriðji íslenski körfuboltamaðurinn sem nær að skora yfir tuttugu stig að meðaltali í leik á Smáþjóðaleikunum.

Elvar bætti met þeirra Guðmundar Bragasonar og Herberts Arnarsonar sem báðir náðu að skora 20 stig að meðaltali í leik á Smáþjóðaleikunum, Guðmundur fyrst í Lúxemborg 1995 og Herbert svo á Íslandi tveimur árum síðar.

Guðmundur Bragason er áfram sá sem hefur skorað flest heildarstig á einum Smáþjóðaleikum en hann skoraði 97 stig í 5 leikjum á leikunum á Möltu árið 1993. Logi Gunnarsson var tveimur stigum frá því að jafna það met í fimm leikjum á Smáþjóðaleikunum í San Marinó árið 2001.

Elvar Már var einnig með 6,0 fráköst og 5,5 stoðsendingar að meðaltali í leik auk þess að setja niður 3,3 þrista að meðaltali í leik og hitta úr 95 prósent vítaskota sinna.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann 2 af 4 leikjum sínum og tryggði sér bronsverðlaun.

Flest stig í leik fyrir íslenska karlalandsliðið í körfubolta á einum Smáþjóðaleikum:

21,0 - Elvar Már Friðriksson, 2019

20,0 - Guðmundur Bragason, 1995

20,0 - Herbert Arnarson, 1997

19,7 - Valur Ingimundarson, 1989

19,4 - Guðmundur Bragason, 1993

19,3 - Teitur Örlygsson, 1995

19,0 - Logi Gunnarsson, 2001

17,5 - Magnús Þór Gunnarsson, 2005

17,4 - Brenton Birmingham, 2007

17,4 - Damon Johnson, 2003

17,3 - Teitur Örlygsson, 1989

17,2 - Herbert Arnarson, 1997




Fleiri fréttir

Sjá meira


×