Körfubolti

Þjálfari ríkjandi Evrópumeistara í körfubolta með námskeið á Íslandi um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radovan Trifunovic, landsliðsþjálfari Evrópumeistara Slóveníu.
Radovan Trifunovic, landsliðsþjálfari Evrópumeistara Slóveníu. Getty/Murat Kaynak/
Radovan Trifunovic, landsliðsþjálfari Evrópumeistara Slóveníu, er á leið til Íslands og mun vera aðalfyrirlesari á þjálfaranámskeiðið KKÍ um helgina.

Trifunovic er 46 ára gamall og tók við slóvenska landsliðinu af Igor Kokoskov árið 2017. Saman gerðu þeir slóvenska landsliðið að Evrópumeisturum haustið 2017 en Trifunovic var þá aðstoðarþjálfari.

Slóvenía mætti meðal annars Íslandi í riðlakeppni EuroBasket 2017 í Finnlandi og vann þá 102-75 sigur. Slóvenar unnu alla fimm leiki sína í Helsinki og héldu síðan áfram sigurgöngu sinni í úrslitakeppninni í Istanbul í Tyrklandi.

Slóvenska liðið sló þá út Úkraínu, Lettland og Spán áður en liðið vann 93-85 sigur á Serbíu í úrslitaleiknum. Goran Dragic var valinn leikmaður mótsins og hinn ungi Luka Doncic var einnig í úrvalsliðinu.

Slóvenar komust ekki á HM í Kína sem fer fram 31. ágúst til 15. september næstkomandi. Þeir sátu eftir í undankeppninni þar sem Spánn, Tyrkland og Svartfjallaland komust áfram upp úr þeirra riðli. NBA-stjörnurnar Goran Dragic og Luka Doncic gátu ekki verið með í þessum leikjum og munaði mikið um það.

Næst á dagskránni er því undankeppni Eurobasket 2021 þar sem Slóvenar reyna að verja titil sinn.

KKÍ heldur stóra landsliðshelgi að Ásvöllum þar sem öll yngri landsliðin munu æfa föstudag til sunnudag líkt og í fyrra. KKÍ mun síðan keyra með fram æfingum þjálfranámskeið 2.a. í samstarfi við FIBA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×