Körfubolti

Ægir og félagar komnir áfram í úrslitakeppninni eftir mikinn spennuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson.
Ægir Þór Steinarsson. Vísir/Bára
Íslendingaliðið Regatas Corrientes tryggði sér í nótt sæti í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í körfubolta í Argentínu eftir sigur í fjórða leiknum á móti San Martín.

Ægir Þór Steinarsson er þarna í sinni annarri úrslitakeppni á þessu tímabili en hann spilaði eins og kunnugt er með Stjörnuliðinu í Domino´s deildinni í vetur áður en hann fór út til Argentínu.

Regatas Corrientes vann leikinn 128-124 eftir tvíframlengdan leik og einvígið þar með 3-1.





Ægir kom inn af bekknum og var með 5 stig, 4 stoðsendingar og 1 frákast á 21 mínútu. Íslenski leikstjórnandinn gaf flestar stoðsendingar í sínu liði ásamt Argentínumanninum Marco Giordano.

Regatas liðið tapaði fyrsta leik en vann síðan næstu þrjá. Ægir átti sinn besta leik í einvíginu í leik tvö þegar Regatas jafnaði metin. Hann var þá með 13 stig og 6 stoðsendingar.

Í þessum fjórum leikjum í sextán liða úrslitunum var Ægir samtals með 33 stig og 16 stoðsendingar eða 8,3 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hitti úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum í einvíginu eða 56 prósent skotanna.

Það sem meira er að Ægir tapaði aðeins samtals 4 boltum á þeim 86 mínútum sem hann spilaði í einvíginu á móti San Martín.

Regatas Corrientes mætir Instituto í átta liða úrslitunum en það er gríðarlega sterkt lið sem endaði í öðru sæti í deildarkeppninni. Regatas endaði þar í sjöunda sæti.

Hér fyrir neðan má sjá Ægi hlusta á liðsfélaga sína syngja á leiðinni í leikinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×