Erlent

Umfjöllun Guardian um Hatara: Vilja næst spila í landi sem stundar ekki „ólöglegt hernám“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Meðlimir Hatara spariklæddir á rauða dreglinum í Tel Aviv um helgina.
Meðlimir Hatara spariklæddir á rauða dreglinum í Tel Aviv um helgina. Getty/Guy Prives

Breska dagblaðið The Guardian birti í morgun ítarlega umfjöllun og viðtal við hljómsveitina Hatara, sem tekur nú þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision. Söngvarar sveitarinnar, Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan, lýsa pólitískri afstöðu sinni í keppninni og viðtökum í Ísrael í viðtalinu – og koma einnig inn á „fílinn í herberginu“.

Spenna og hatursbréf

Í greininni er rifjað upp að ísraelsk stjórnvöld hafi verið beitt þrýstingi vegna komu Hatara til landsins en innanríkisráðuneytið þar í landi hefur ítrekað verið hvatt til að meina Hatara inngöngu í landið. Þá hefur gagnrýni borist úr báðum áttum, þ.e. stuðningsmanna ísraelskra stjórnvalda annars vegar og Palestínumanna hins vegar.

„Það er spenna. Það er fíll í herberginu,“ segir Matthías í því samhengi og bætir við að hljómsveitinni hafi borist hatursbréf.
 

Þátttaka jafngildir pólitískri afstöðu

Þá ítrekar Matthías það sem kom fram í viðtali breska ríkisútvarpsins við Hatara í gær, þ.e. að þeir muni beita sér fyrir því að varpa ljósi á stefnu ísraelskra stjórnvalda – einkum þegar kemur að Palestínu – þrátt fyrir að pólitískur áróður sé bannaður í keppninni.

Hatari við BBC: „Fráleitt að halda keppnina í landi þar sem átök og óeining eru ríkjandi“

„Eurovision er auðvitað fallegur hlutur sem er byggður á hugmyndum um frið og einingu og í ár er hún haldin í landi sem er þjakað af átökum og sundrung,“ segir Matthías.

„Það að leyfa orðræðunni um mjúku, friðelskandi poppkeppnina fara fram óáreitta í þessu samhengi er, að okkar mati, ótrúlega pólitískt. Allir sem taka þátt í þessu eru að taka þátt í pólitískri yfirlýsingu, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki.“

Fáránlegt að taka þátt í keppninni

Þá er einnig drepið á heimsókn Hatara á Vesturbakkann en Matthías lýsir því sem „fáránlegu“ að taka þátt í keppninni. Þar séu allir kurteisir og hugsi aðeins um tónlistina.

„Og að vera í þessari sápukúlu daginn eftir að hafa séð aðskilnaðarstefnuna í framkvæmd, klukkutíma bíltúr í burtu, er þversögn sem við viljum vera meðvitaðir um.“

Hataramenn eru að lokum inntir eftir framtíðarplönum og segjast þeir hyggja á útgáfu nýrrar plötu í september. Þá gera þeir einnig ákveðnar kröfur til tónleikastaða framtíðarinnar:

„Spila á tónleikum í löndum þar sem ólöglegt hernám er ekki að eiga sér stað,“ segir Matthías um áætlanir sveitarinnar eftir Eurovision í Tel Aviv.

Hatari stígur á stokk annað kvöld á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision. Sveitin hefur nú æft tvisvar á stóra sviðinu en í kvöld fer fram dómararennsli í Eurovision-höllinni. Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, ræddi næstu daga í keppninni og viðtökurnar hingað til í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má hlusta á í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.